Hér á suðvesturhorni Noregs, sé hægt að tala um ‘horn’ á þeim landshluta, hefur síðan á fimmtudag ríkt eins konar Indian Summer, eins og Bandaríkjamenn kalla það, það er að segja hreinræktaðir sumardagar með molluhita á því tímabili sem ætti að kalla hápunkt haustsins. Hitinn hefur verið vel yfir 20 gráður frá því löngu fyrir hádegi, skafheiður himinn og blankalogn. Reyndar er ég svo heppinn í vinnunni að vera við opið gin Norðursjávarins uppi í Sola svo maður hefur fengið að njóta dálítillar hafgolu sem er býsna svalandi þar sem svitinn beinlínis streymir af mannskapnum bara við að sitja í kaffi. (MYND: Þessi mynd er tekin núna í morgun, 1. október. Það var ekkert annað að gera en að drífa sig bara beint úr rúminu og út á svalir með kaffibollann.)
Ekki er hægt að kvarta yfir svona sumarbónus. Haustið í þessum landshluta einkennist af mikilli rigningatíð, gjarnan með hvassviðri, og við höfum alveg fengið okkar skerf af slíku síðustu þrjár vikur. Það er frábært líka, þá kveikir maður upp í arninum og fær sér kaffi með Bailey’s. Þessir aukasumardagar eru vel þegnir og sérstakt að upplifa þá með gróðurinn í haustlitum. Við erum boðin í grill til Sigurbjarnar og Unnar, vinafólks okkar, í kvöld. Maður hefur svo sem ekki verið í mörgum grillboðum í október um ævina. Nú er spennandi að sjá hvernig október verður annars, í fyrra átti ég síðasta sólbað ársins sunnudaginn 31. október.
Þegar þetta er skrifað er setningarathöfn Alþingis Íslendinga að hefjast. Eða Alþingis sumra Íslendinga ætti maður kannski að skrifa. Mjög hefur verið látið með hugsanleg mótmæli og hafa efnistök sumra fjölmiðla reyndar verið með því móti að læðst hefur að manni að örlítið sé verið að ýta undir mótmæli. Egill Helgason spyr í pistli í gær hver krafan yrði í þessum mótmælum og veltir upp ýmsu; færslu lána úr gömlu bönkunum í nýja með afslætti en innheimtu án afsláttar, atvinnuleysi, ESB eða hreinlega bara almennri reiði og ógleði gagnvart stjórnmálum þessara tíma. Hann hefur nokkuð til síns máls. Ég tók mig til og horfði á sjónvarpsfréttir RÚV frá nýliðinni viku í gærkvöldi. Ég get ekki að því gert að mér finnst staðan á Íslandi enn vera á svo grimmum hraðbyr niður að stefnan er nánast lóðrétt.