Þá getur maður farið að sofa rólega eftir að innbrota- og brunavarnakerfi frá Lyse var sett upp hér í dag. Ég hef áður skrifað um Lyse, sem í grunninn er orkuveita, en hjá þeim fær maður á einu bretti síma, net, sjónvarp, rafmagn og þjófavarnakerfi. Fyrir alla súpuna kemur svo einn reikningur mánaðarlega. Það er býsna þægilegt.
Þessi kerfi eru örlítið frábrugðin heimiliskerfunum frá íslenskum fyrirtækjum. Til dæmis er stjórnborðið nær þrefalt stærra og er ekki tengt símalínu. Kerfið sendir öll boð frá sér á SMS-formi. Fari það í gang fær maður SMS um málið og stjórnstöð öryggisfyrirtækisins um leið. Annað atriði er beintenging við slökkvilið sem ég tel algjört formsatriði í 300.000 manna samfélagi sem er nánast allt í timburhúsum. Fari reykskynjari í gang fær slökkviliðið boð um það strax og leggur af stað í útkall. Maður á sem sagt að vera leiftursnöggur að hringja í 110 og afpanta gengið sé um falsboð að ræða. Ég hef aldrei búið í timburhúsi fyrr en hér í Noregi, fyrst á Beverstien og svo hér, og mér líður ágætlega með þetta fyrirkomulag.
Hér var ofnbakaður þorskur með soðnum kartöflum á borðum eftir stíf átök í ræktinni. Ég held að ég hafi einu sinni smakkað þorsk á Íslandi en er reyndar ekki viss, þaðan fer hann allur í útflutning og við borðum gömlu góðu ýsuna. Þorskur er hreinn afbragðsfiskur og full ástæða til að gefa honum meiri gaum en (margir) Íslendingar gera. Fyrir utan þorsk eru Norðmenn forfallnar ufsa- og makrílætur. Ufsi er auðvitað sömu ættar og þorskur en feitari og þéttari í sér. Fínn á diskinn. Makríl þori ég ekki að borða eftir að hafa séð hann í Búlgaríu þar sem allir veitingastaðir buðu upp á hann djúpsteiktan með augum og öllu innvolsi, beint úr greipum Ægis ofan í djúpsteikingarpott. Sjúkt.
Við fengum ufsa í vinnunni um daginn en á þeim deildum þar sem sjúklingar liggja lengur en hálftíma er framreiddur mikill veislumatur og hollur, allt glúteinfrítt, lífrænt og ég veit ekki hvað, sniðið að þörfum veikra. Verði afgangur af sjúklingamatnum má starfsfólkið dýfa sér í hann og þessu nær maður annað slagið. Ég sagði við matráðinn í eldhúsinu að mér þætti fróðlegt að upplifa hinn mikla þorsk- og ufsaáhuga þjóðarinnar, uppi á Íslandi væri ýsan (sem heitir hyse á norsku) allsráðandi á diskinum. Vesalings konan hafði þá aldrei heyrt um þessa merkilegu fisktegund og hélt helst að ég hefði sloppið út af geðdeildinni…
…sem ég er reyndar að fara að vinna á. Ég sótti um stöðu sem afleysingavaktmaður (ekstravakt) á deildinni en þar er ógeðfræðimenntuðu fólki stundum hleypt í að sitja yfir sjúklingum sé það ekki brjálað sjálft. Ég fór í tvö löng atvinnuviðtöl (Norðmenn vilja ræða við mann um hvað maður borðaði í gær í atvinnuviðtölum) og hef verið boðaður í opplæring eða starfsþjálfunarvaktir í september. Þetta verða þó bara íhlaup, þriðja hver helgi og forföll. Ef þeir hleypa mér þá út aftur.
Fyrirsögn fengin að láni frá sjálfum Morthens, Aldrei fór ég suður.