Sá sögulegi atburður varð nú um helgina að atlisteinn.is varð fyrir fólskulegri árás tölvuþrjóta úr röðum albanskra þjóðernisöfgamanna en þá brutust einstaklingar úr röðum samtakanna Albanian Hacker’s Terrorist inn í vefumsjónarkerfi síðunnar og birtu áróðursskrif sín sem nýja forsíðu. Meira að segja með tónlist undir.
Árásin virtist fyrst og fremst beinast gegn Serbum og því rannsóknarefni hvernig þeir félagar í Albanian Hacker’s Terrorist komust að þeirri niðurstöðu að (norsk-)íslenskt vefsetur teldist hentugur farvegur fyrir áróðursvél þeirra. Þykir þetta sýna svo ekki verður um villst hver umsvif atlisteinn.is á alþjóðavettvangi og í myrkum afkimum fyrrum Júgóslavíu eru í raun orðin. Sannast þar hið fornkveðna að penninn er máttugri en sverðið.
Undir nokkuð metnaðarfullu lógói af tvíhöfða erni mátti lesa nöfn þeirra þriggja kerfisfræðinga sem lýstu verkinu á hendur sér og var þar DR.1NJ3CT1ON nokkur í broddi fylkingar ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum sem ég man ekki lengur hvað titluðu sig. Þá fylgdi varnarræða samtakanna á eftir og gekk í stuttu máli út á að Kosovo-hérað hefði ávallt verið og yrði ævinlega hluti Albaníu en ekki þeirra örmu þræla í Serbíu og auk þess væri Stór-Albanía “næstum því til”. Hérna má finna útgáfu sem mig minnir að sé keimlík þeirri sem birt var hjá mér, tónlistin er að minnsta kosti sú sama.
Ríkharður Brynjólfsson og þrautþjálfað sérfræðingateymi hans hjá Tactica (áður Miðneti), sem heldur utan um tæknihlið atlisteinn.is, var ekki nema nokkrar mínútur að uppræta vandamálið og koma réttu innihaldi síðunnar á sinn stað aftur eldsnemma á sunnudegi enda á þjónustan þar á bæ fáa sína líka í hinum harða og stafræna heimi lýðnetsins. Rikki fær þakkir og hrós fyrir þjónustuna og ekki síður Kári bróðir sem varð árásarinnar einna fyrstur var og gerði mér aðvart með SMS-skeyti úr Garðabænum í gærmorgun. Mjög fjölþjóðleg atburðarás sem sagt.
Ég fór svo að gamni að svipast um á Facebook og viti menn, þar eru Albanian Hacker’s Terrorist auðvitað með síðu!