Þögnin

susMínútuþögn klukkan 12:00 í dag tókst bara með eindæmum vel. Í raun mátti heyra saumnál detta. Ég gerði litla félagslega tilraun og kom mér fyrir í mötuneyti sjúkrahússins klukkan 11:57. Þar er alla jafna óstöðvandi kjaftagangur í hádeginu svo sem sæmir mötuneyti stórrar ríkisstofnunar. Þar datt allt í dúnalogn skyndilega án þess að nokkur miðlæg tímavarsla ætti sér stað. Kassadaman fór af kassanum og inn í eldhús til að undirstrika þátttöku sína og viðstaddir hættu að borða allir sem einn til að glamur hnífapara skemmdi ekki augnablikið. Þetta var einkennileg stund, þrungin merkingu. Mínútu seinna skall kliðurinn á, snúinn glamri borðbúnaðar, og stemmningin í mötuneytinu varð á svipstundu eins og hvert annað mánudagshádegi. (MYND: Háskólasjúkrahúsið í Stavanger.)

Snemma í morgun birtust skilaboð frá Bård Lilleeng forstjóra á innra neti sjúkrahússins. Þar mæltist hann til þátttöku alls starfsfólks í þögninni en veitti heimild til frávika kæmi athæfið ankannalega út í samskiptum við sjúklinga. Eitt fórnarlamb skotárásarinnar í Utøya liggur hér á háskólasjúkrahúsinu, tvítugur maður sem er á batavegi.

Ég reikna með að ekki hafi síður tekist til með þögn uppi á Fróni.

Athugasemdir

athugasemdir