Við erum að missa þessa skemmtilegu íbúð við Overlege Cappelensgate sem gegnt hefur hlutverki heimilis okkar síðan í júlílok 2010. Eigandinn sendi okkur tárvott uppsagnarbréf 1. mars og tjáði okkur að hún þyrfti því miður að flytja til baka í íbúðina sjálf. Þriggja mánaða uppsagnarfrestur stendur til 1. júní. Ef það er eitthvað sem ég nenni ekki að standa í akkúrat núna er það að flytja. Stefnan var að vera hérna í þrjú ár og flytja inn í Sandnes, draumabæinn, sumarið 2013. (MYND: Meðan allt lék í lyndi, fyrstu dagarnir á Overlege Cappelensgate sumarið 2010. Búslóðin enn í geymslu í Hillevåg og stofan tóm.)
Þessi óvænta stefna málanna býður þá auðvitað upp á að við flytjum þangað strax. Annar möguleiki í stöðunni er að finna íbúð eða hús í Tananger og öðlast aftur göngufærið góða í vinnuna eftir martraðarkenndar hamfarir í strætisvögnum. Helsti gallinn við þá hugmynd er að þar er nánast ekki neitt. Það er ekki einu sinni bar í öllu sveitarfélaginu Sola (þar sem Tananger er) ef frá er skilinn barinn á flugvellinum en til að komast þangað þarf að eiga gildan flugmiða og vera kominn gegnum öryggisleit.
Aukavinnan í miðbænum hérna í Stavanger er svo enn einn þátturinn. Mín vinna er háð því að ég sé í göngufæri við heimilið þar sem ég lýk störfum löngu eftir að síðasti næturstrætó hverfur á braut og Rósa rétt nær síðasta vagni. Sennilega líður þessi aukavinna undir lok við flutninga, það er ólíklegt að við búum áfram í námunda við miðbæ Stavanger, leiguverð er einfaldlega of hátt á svæðinu. Við fáum stærri íbúðir á 10.000 krónur en þá sem við leigjum nú á 13.000 til dæmis á Ganddal-svæðinu í Sandnes. Fjarlægð til vinnu yrði ekki ósvipuð ef farið væri Sandnes-megin við Hafursfjörðinn en til þess að vera á svæðinu fyrir átta á morgnana þarf bíl þar sem almenningssamgöngur þá leiðina hefjast ekki eins snemma og frá Stavanger til Tananger yfir Hafursfjarðarbrúna. Beðist er velvirðingar á því að sennilega skilja aðeins þeir sem búa eða hafa búið hérna hvað ég er að fabúlera um.
Töluverðar pælingar eru því fram undan. Á maður að vaða í flutninga 1. apríl og borða páskasteikina innan um fjöll af pappakössum eða er sniðugra að nota uppsagnarfrestinn allan, flytja í lok maí og hafa lífið í skorðum þangað til? Ég verð að játa að ég veit það ekki. Hvort tveggja hefur sínar freistandi hliðar og hvort tveggja endar í sömu niðurstöðu: Ég nenni ekki að flytja.
Á þessu skemmtilega vandamáli verður sofið næstu daga hér á heimilinu.