Ja, þannig var það að minnsta kosti fram á haust 2008. Eftir það er þjóðinni áfram haldið sofandi en nú án öndunarvélarinnar. Það er öllu verra. Það er rétt komið hádegi þegar þetta er skrifað en þó er fréttaflutningur dagsins nú þegar orðinn svo yfirgengilegur að ég veit ekki hvort ég verð enn utan stofnana að loknum kvöldfréttum (enda stofnanir flestar á hausnum eða á leið þangað, svo lífið er varla skárra þar).
Það er nú ekkert nema sjálfsögð og eðlileg kurteisi við góða viðskiptamenn að þeir fái helming skulda sinna afskrifaðan hjá stórum og vel stæðum ríkisbönkum. Á hinn bóginn er það talið jaðra við hjal geðfatlaðra þegar formaður Framsóknarflokksins laumar þeirri hugmynd út úr sér í ræðupúlti þjóðþingsins að lítil 20 prósent af skuldum almennings verði afskrifuð, svona til að halda einhverjum hópi frá gjaldþroti eins og einu ári lengur.
Góðar fréttir líka að 10.535 fjárnámsbeiðnir séu komnar til meðferðar hjá sýslumanninum í Reykjavík skv. frétt 365 (ég vek sérstaka athygli á að þar er aðeins rætt um sýslumanninn í Reykjavík en vitað er um veruleg afköst í þessum efnum á Selfossi líka og þá eru ótalin 22 önnur sýslumannsembætti samkvæmt vefsetri sýslumanna). Þetta er auðvitað mjög jákvætt fyrir þá sem eru á leið í fjárnám, og þeir eru ófáir ef marka má málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna, þar sem fullnustudeild sýslumanns stíflast náttúrulega eins og kamar á sveitaballi af öllum þessum fjárnámsbeiðnum. Þetta eru 52,6 kíló af beiðnum að því gefnu að hver þeirra sé ein A4-síða.
Þá ritar Ambrose Evans-Pritchard fróðlega grein í Daily Telegraph fyrir rúmri viku þar sem hann vitnar í Fitch Ratings um að kínverska bankakerfið sé upprennandi stórslys. Það held ég eitthvað muni nú ganga á í kínversku bankahruni, síðan í fyrradag er búið að drepa 160 og slasa þúsund í blóðugum deilum úígúa og Han-Kínverja einhvers staðar í Xinjiang af því að þeim fyrrnefndu finnst sér ekki sýnd næg virðing af hinum. Hvað gera þeir þá ef vitleysingar setja bankana þeirra á hausinn?
Þessi klausa í grein Evans-Pritchard er óborganleg og segir meira en mörg orð. Sennilega hefði maður ekki hlegið að þessu síðasta haust en nú finnst mér þetta bráðfyndið, það þarf bara að nefna Ísland og flestir lesendur átta sig á hryllingnum.
Fitch’s “macro-prudential risk” indicator for China threatens to jump from category 1 (safe) to category 3 (Iceland, et al). This is a surprise to me but Michael Pettis from Beijing University says China’s public debt may be as high as 50pc-70pc of GDP when “correctly counted”.
Kínverjar eru í vondum málum að skulda orðið 50 – 70 prósent af vergri þjóðarframleiðslu. Flestir Íslendingar myndu þó glaðir skipta við þá á 250 prósentunum okkar. En brosum, það er búið að ná raðmorðingjanum í Suður-Karólínu.