Ég var að hóta einhverjum ferðasögum hérna en áttaði mig svo á því að ferðasögur eru almennt ekkert alskemmtilegasta efni sem maður les. Jú, ef einhver fær matareitrun og beljandi niðurgang einhvers staðar, er rændur af lögreglunni í Guatemala eða lendir í þoku og skordýrum í göngu á Preikestolen þá geta slíkar sögur verið hressandi. Ég þekki reyndar dæmi um allt framangreint. Ég man sérstaklega eftir svæsinni matareitrunarsögu sem var af einhverjum ástæðum í minningargrein þegar ég var að prófarkalesa á Morgunblaðinu. Greinarhöfundur og kona hans höfðu þá verið að borða skelfisk einhvers staðar við Miðjarðarhafið og fengu um nóttina svo gríðarlega matareitrun að ‘…skeljarnar komu út um alla enda.’ Meitlað og einstaklega myndrænt orðalag!
Ég ætla því að hlífa lesendum við einhverjum ferðarómönum með álíka afþreyingargildi og Lýsing Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum, doðrantur upp á hundruð síðna sem ég á þó hér í hillu. Bið ég Eyfirðingum og þeirra sveitum auðvitað allrar blessunar samt. Þess í stað hyggst ég eingöngu varpa fram stuttum en minnisstæðum brotum úr sumarfríinu innan um annað. Eitt þeirra er tvímælalaust heimsókn mín á Kentucky Fried Chicken í Faxafeni laugardaginn 25. júní.
Mér leið eins og ég get ímyndað mér að heittrúuðum múslima líði á leið til Mekka fyrir utan að röðin var blessunarlega styttri á KFC. Sælukenndur hrollur fór um mig við að finna ilminn í loftinu og þegar afgreiðslustúlka að nafni Hildur sneri sér að okkur lagði ég bara spilin á borðið. Ég sagði henni frá hroðalegri KFC-útlegð okkar í Noregi þar sem þessi göfuga matarkista ætti sér engan fulltrúa en marga tilbiðjendur. Hildur skildi mig strax og spurði hvort ég vildi þá ekki bara hafa alla bitana leggi. Ég kom ekki upp orði af lotningu en kinkaði kolli litverpur og titrandi. (MYND: Egils á alla kanta. Ekki dugðu minna en tvær í fyrsta smakkinu. Gler algjört skilyrði!)
Án þess að lengja nokkuð meira í þessari lýsingu fór þarna fram át án landamæra. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þetta var í hádeginu og ég rétt náði að látna sjatna hæfilega í mér til að hafa pláss fyrir 300 gramma nautasteik og meðlæti á Argentínu fimm tímum seinna. Tilfinningin var einstök. Næstu útrásarvíkingar gætu rakað inn milljörðum með því að opna KFC í Noregi. Held ég. Þetta er reyndar einstaklega vel heppnað á Íslandi. Ég hef borðað þennan mat í Bandaríkjunum þar sem fitan bragðast eins og lýsi og í Varna í Búlgaríu var KFC töluvert ólíkt. Kjúklingur getur enda varla verið eins við Svartahafið og á Íslandi. (MYND: Pylsugerðarmaður á Gladmat-hátíðinni í fyrra sneiðir handa mér bút af elgpylsu. Nóg var úrvalið. Gladmat 2011 hófst einmitt í dag.)
Egils appelsín í gleri var önnur opinberunin og strax fyrsta kvöldið á Íslandi var sótt að Bæjarins bestu. Vorum við þó nýkomin úr matarboði! Eins og Norðmenn eiga sér fjölskrúðuga pylsumenningu hafa þeir ekkert svar við SS pylsunni. Það er dagljóst. Við höfum smakkað hér elgpylsu og alls konar pylsur sem heita meðal annars knakkpølse, middagspølse, fleskepølse, spekepølse, servelatpølse og kjøttpølse. Eins höfum við séð hina sænsku pylsu falukorv en yfir það strik verður ekki farið. Í öllum þessum aragrúa hefur engin pylsa sem ég hef smakkað enn leyst gátu íslensku SS pylsunnar. Og það er kannski bara eins gott.