Þetta var svakalegt

nmskeiVikunni, er hófst sem óyfirstíganleg seigfljótandi martröð klukkan 06:30 á mánudagsmorgun, lauk á föstudaginn eftir sæmilega yfirvinnutörn og punkti yfir i-ið með einum rétt rúmlega þreföldum í stóru glasi. Ekki veitti af! Síðan á mánudaginn hef ég setið á námskeiðum í 28,5 klukkustundir, tekið tvö próf og unnið tvo vinnudaga, fimmtudag og föstudag. (MYND: We don’t need no education…þetta var alveg rétt hjá þeim í Pink Floyd.)

Verstir voru þriðjudagur og miðvikudagur, þá sköruðust dag- og kvöldnámskeiðið og úr varð einhvers konar þoka sem ég man bara að hluta. Ég hélt að Háskóli Íslands væri einn um þessar kennsluaðferðir en þær hafa greinilega fengið að fylgja með í hnattvæðingunni. Þar á ég við að kenna 20 manna, eða stærri, hópi í frekar litlu rými með litla sem enga loftræstingu, dyr og glugga kirfilega lokuð og oftar en ekki tiltæka ofna í botni eða eitthvert ‘ógurlega tæknilegt’ sjálfstýrt ofnakerfi frá 1944 (ekki örbylgjuréttunum) sem stillir ofnana sjálfkrafa á 50 gráður 1. september og slekkur á þeim aftur 1. júní.

Ég er sem sagt hálffeginn að þessi vika er yfirstaðin. Ég hef ekki fengið neitt símtal um að ég hafi fallið á öðru hvoru prófinu svo það er smuga að ég hafi náð þeim. Ég ætla samt að gefa mér öryggissvigrúm (n. sikkerhetsmargin) fram til klukkan 16:00 á þriðjudaginn og hrósa happi þá.

Annars hafa síðustu dagar verið fínir, sérstaklega veðurfarslega. Á föstudaginn var blankalogn, sól og um átta stiga hiti allan daginn. Ég hefði getað verið á stuttermabol í vinnunni hefðu öryggisreglur ekki boðið þann fatnað sem ég geng í dags daglega. Á föstudagskvöldið lauk starfsfólk NorSea Group vikunni með útborgunardrykkju sem heitir lønningspils á norsku. Hópurinn kom saman á sushi-stað niðri í bæ og drakk þar allt sem flaut. Ekki var borðað, þetta var bara eini staðurinn þar sem hægt var að fá sæti fyrir hópinn við eitt borð. Þetta er einn af þessum stöðum þar sem sushi-réttir fara um salinn á færibandi og ef þú lætur freistast og spænir í þig einn rétt borgarðu fyrir hann og málið er dautt.

Ég hef aldrei getað tileinkað mér sushi. Japanar verða kannski allra manna elstir en mér finnst það ekki þess virði að troða í mig hráu fiskmeti. Þá skal ég frekar bara sætta mig við 79,7 ára lífslíkur íslenskra karlmanna. Það skemmtilegasta sem ég hef upplifað tengt sushi var wasabi-keppni í partýi hjá Steina vini mínum í Breiðholtinu árið 2005 eða ’06. Wasabi er græna sterka drullan sem fylgir með sushi, eins konar japanskt chilli.

Mín fyrsta limra fjallaði reyndar einmitt um wasabi. Minn gamli félagi úr Karatefélaginu Þórshamri, Bjarni Kærnested, bjó um tíma í Japan þar sem hann lagði stund á nám og drykkju. Þetta hefur verið um eða nálægt 2005 minnir mig. Bjarni var einhvern tímann að fá sér sushi með wasabi og þurfti svo að létta á sér. Hann gekk á salernið en gleymdi að hendur hans voru ataðar wasabi. Það klíndist á hans helgustu vé og leiddi til mikilla óþæginda þar sem það virkar sem brennisteinssýra á bragðlauka og þá sennilega taugar almennt. Með Bjarna var Cliff vinur hans sem er hommi þótt ekki hafi verið um neitt kynferðislegt að ræða milli þeirra. Datt þá í mig þessi staka einhverju sinni er ég saup brennivín:

Er sushi-skammt fékk hann sér drjúgan
fór wasabi-sletta að þrúg’ann.
Það er langt í frá himinn
að fá chilli á liminn
en Cliff fékk samt ekki að sjúg’ann.

Það gat verið gaman í þá daga. Ég vona að þú reiðist ekki ef þú lest þetta, Bjarni.

Athugasemdir

athugasemdir