Þetta er fréttamennska

ppararFréttir af íslenskum pípulagningamönnum sem starfa fyrir 54 norskar krónur á tímann rétt utan við Ósló hafa verið fluttar á RÚV í tveimur hlutum (fyrri hluti, seinni hluti) síðustu daga og er þar notast við efni frá norska ríkisútvarpinu NRK. Þetta tímakaup nær náttúrulega ekki nokkurri átt, við töldum okkur vera botngróður Noregs þegar við vorum að skúra á háskólasjúkrahúsinu hér í sumarafleysingum í fyrra, nýflutt til landsins. Við vorum þá með 122,56 krónur á tímann í dagvinnu og ég hef enn ekki heyrt um lægra tímakaup fyrr en nú í þessari frétt NRK og RÚV. (MYND: NRK.)

Burtséð frá því sem efnislega er verið að fjalla um í fréttinni er stórkostlegt að fylgjast með granítharðri fréttamennsku Fredrik Solvang og Elisabet Grøndahl. Þegar NRK hjólar í einhver mál geta þeir verið alveg helgrimmir og ég vildi persónulega ekki lenda í þeim sem stjórnmálamaður eða byggingaverktaki eða hver sem er með eitthvað misjafnt í pokahorninu. Einnig má nefna fréttaskýringaþáttinn Brennpunkt sem dæmi um mjög öfluga frétta- og rannsóknarblaðamennsku.

Hérna er frétt NRK í heild sinni. Viðtal Fredrik Solvang við Torstein Tveiten, framkvæmdastjóra verktakafyrirtækisins Oras, undir lokin er óborganlegt. Fréttamaðurinn gefur ekki millimetra eftir og kemur með spurningar sem maður vildi gjarnan oftar sjá endurspeglaðar í vinnubrögðum íslenskra fjölmiðla sem eru langt í frá slæm en geta verið gagnrýnislaus í vissum erfiðum eða snúnum málum. ‘Ef þú ræður pípulagningamann frá Filippseyjum myndirðu þá greiða honum laun samkvæmt filippseyskum launatöxtum?’ spyr Fredrik og heldur áfram: ‘Er það svona sem Oras nær í tekjur sínar?’ Framkvæmdastjórinn lyppast niður, hann getur litlu svarað og það sama má segja um marga viðmælendur NRK í þessari frétt sem mér finnst mjög vel unnin. Rætt er við alla sem koma að málinu eða bera ábyrgð og hverjum sem upphaflega er um að kenna er ljóst að þessi afhjúpun er engin skrautfjöður í hatt norsku auðkýfinganna Arthur Buchardt og Kjell Inge Røkke sem standa fyrir þessum framkvæmdum sem þarna eru til skoðunar.

Athugasemdir

athugasemdir