Þeir voru frá Wisconsin eftir allt

don gorskeAlltaf get ég treyst á að CNN bjóði upp á einhverja klikkun sem kemur mér í enn betra skap en ég er í dags daglega. Þessi frétt þeirra snillinganna af Don Gorske sem var að borða 25 þúsundasta Big Mac-hamborgarann sinn í dag er enn ein sönnun þess að fréttir dagsins í dag munu alltaf geta af sér aðeins meiri firringu en fréttir gærdagsins. Ath. ekki er nóg að lesa fréttina, horfa þarf á myndskeiðið líka, jafnvel eingöngu.

Ég man eftir því þegar ég lagði stund á nám í hagnýtri fjölmiðlun fyrir áratug að við sem sátum hið uppörvandi námskeið Áhrif kláms og ofbeldis í myndmiðlum vorum látin horfa á þætti Jerry Springer í tímum og svo var tekið nett pallborð um félagsleg áhrif þessa sjónvarpsefnis á börn og aðra minna þroskaða menn. Ég man að ég spurði mig iðulega hvaðan Jerry fengi viðmælendur sína sem oftar en ekki voru botnsjávar-rednecks með sítt að aftan, luralega mottu og tilheyrandi klæðnað.

Ég var sannfærður um að Suðurríki Bandaríkjanna, einkum þau sem kölluð eru The Deep South, væru uppsprettan en nú sé ég hve rangt ég hafði fyrir mér. Don Gorske er frá Fond du Lac (Bottom of the Lake) í Wisconsin sem tilheyrir hinum svokölluðu Miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Hamborgaraát hans nær yfir áratugi og hann segir meðal annars frá því í viðtalinu þegar hann keypti sér sinn fyrsta bíl. Þá ók hann að sjálfsögðu beint á McDonald’s.

Don Gorske er ekki það versta sem Wisconsin hefur alið af sér. Þaðan komu einnig Joseph McCarthy og sjálfur Jeffrey Dahmer. Sá fyrrnefndi ofsótti kommúnista og kom á fót óamerísku nefndinni en hinn var haldinn náhneigð (gr. necrophilia) og stundaði mannát í stað hamborgaraáts.

Athugasemdir

athugasemdir