Þegar skáld deyr

laxnessÍ dag er 8. febrúar. Þann dag tek ég mér ávallt stutta hvíld frá amstri hversdagsins og læt hugann reika til þessa sama dags árið 1998, þegar þjóðinni bárust fregnir af andláti Nóbelskáldsins Halldórs frá Laxnesi. ‘Klukkurnar hættar að tifa en skáldið lifir í verkum sínum’ minnir mig að hafi verið fyrirsögn heljarmikilla eftirmæla Matthíasar Johannessen, þáverandi Morgunblaðsritstjóra, sem birtust daginn eftir og ég á einhvers staðar ofan í kassa.

Rétt eins og hálft mannkynið man upp á hár hvar það var þegar það heyrði af árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. september 2001 er mér andlátsdægur skáldsins í fersku minni. Ég var starfandi öryggisvörður hjá Securitas og sat á 2. ári í lögfræði eftir að hafa þó um haustið lokið fyrstu önninni í íslenskunni sem ég sneri mér svo alfarið að haustið eftir. Þennan vetur annaðist ég næturvaktir á vörulager Baugs sem þá var í Suðurhrauni í Garðabæ.

Ég var tiltölulega nýmættur á vaktina, hálfnaður við að hella upp á kaffi og starfsmenn Baugs enn á ferli frammi á lagernum. Þar á meðal ók Jón Ásgeir Jóhannesson um á lyftara, þá nýorðinn þrítugur og við það að setjast í forstjórastól Baugs Group (áratug síðar hlustaði ég á frægt viðtal Egils Helgasonar við Jón Ásgeir þar sem sá síðarnefndi sagðist alveg geta unnið á lyftara og ég hugsaði með mér að það væri reyndar rétt, hann gæti það alveg).

Næturvaktirnar þarna voru kl. 18 – 06 í stað 20 – 08 sem tíðkaðist víðast annars staðar og ég svaf iðulega eftir skóla og fram að næturvakt í vaktavikunni. Þess vegna var ég einmitt staddur í þessum kima alheimsins, nývaknaður og að átta mig á kaldri febrúarnóttinni fram undan, þegar kvöldfréttatími Ríkisútvarpsins hófst í útvarpinu og fréttirnar bárust af því að skáldið hefði kvatt okkur. Nettengd tölva var ekki til staðar á því svæði sem öryggisverðir höfðu aðgang að enda hefði það varla fært mér fregnirnar mikið fyrr, innlendar fréttasíður voru ekki á hverju strái í febrúar 1998, mbl.is hóf göngu sína sex dögum fyrir dauða skáldsins. Hugsanlega hafa þeir verið fyrstir með þetta.

Mig setti eðlilega hljóðan við tíðindin, að svo miklu leyti sem það var hægt þar sem ég steinþagði reyndar fyrir, en þarna lagðist sem sagt yfir mig eins konar innri þögn sem skóp augnablikinu töluverða dýpt. Ég man sérstaklega að ég horfði á luktar dyr frystiklefans beint á móti aðstöðu vaktmanna á meðan þessi nýja staðreynd tók sér bólfestu í mér – skáldið gengið.

Ég hef allar götur frá því að námskrá grunnskóla landsins opnaði mér heim Halldórs Laxness með lestri Íslandsklukkunnar í 9. bekk verið mikill aðdáandi verka hans og sennilega enga bók lesið oftar en það epíska meistaraverk um för snærisþjófsins Jóns Hreggviðssonar á fund erlendra stórmenna að biðja sér frelsis. Við dánarfregnina kom þó fyrst upp í hugann kynngimögnuð lýsing úr Heimsljósi, 9. kafla, þar sem segir af dauða Jóseps gamla:

Þá hafði hann dauðvona svip, forkláraðan og bjartan, því sól annars heims var að rísa yfir hann, túngan, sem undanfarna daga hafði verið bundin í munni hans, var leyst á ný, hið loðna mæli hans aftur svo skýrt að vel mátti greina. Mikið skáld er Guðmundur Grímsson Grunnvíkíngur, sagði hann. Síðan mælti hann ekki fleira. Þessi voru hans andlátsorð.

Þarna er ein af þessum skæru perlum sem maður rekst svo víða á í verkum Laxness og eru skýrt dæmi um setningar sem skáldið lá yfir og skrifaði upp aftur og aftur, stundum bara með örlitlum blæbrigðamun, þar til hann varð endanlega ánægður með það sem á blaðinu stóð.

Að loknum kvöldfréttum Ríkisútvarpsins rölti ég út fyrir með kaffibollann og reykti fyrstu sígarettu vaktarinnar. Þar kvaddi ég skáldið í huga mér og þakkaði kynnin.

Athugasemdir

athugasemdir