‘Síða hárið var draumurinn en ég var dæmdur til að vera með bursta,’ söng meistari Morthens í hinum ógleymanlega slagara Sumarið 68. Það sem var sumarið 68 fyrir Bubba var sumarið 92 fyrir mér. Hver man ekki eftir hinu ógleymanlega ‘Ilmar sem unglings andi’ (Smells like Teen Spirit) í flutningi Seattle-frumkvöðlanna í Nirvana og þeirri satanísku straumbylgju sem þeirra tónlist veitti upp á íslenskar rokkstrendur þetta ógleymanlega sumar 1992.
Fyrir mér er það ógleymanlegt af því að ég man varla eftir einum einasta degi frá þessu sumri. Ég lauk þarna næstsíðasta árinu í FG og starfaði svo hjá Ístak við að reisa girðingu sem enn stendur utan um geymslusvæðið í Kapelluhrauni. Þar var hlýtt og ljúft og ég eyddi kvöldunum í að lesa The Dark Tower eftir meistara Stephen King. Nánast allar aðrar stundir fóru í að þamba vodkann Stolichnaya og teyga unaðssemdir lífsins. Og hvílíkar unaðssemdir.
Þá fáu daga sem ég man af sumrinu 1992 hófum við félagar, Hilmar Veigar Pétursson, Andri Ægisson og ég sjálfur, drykkju vel fyrir hádegi, nurluðum saman fyrir leigubíl úr Garðabænum og mættum gallvaskir á Berlín, Hressó (gamla Hressó sko), Gullið, Fimmuna við Hafnarstræti og aðra annálaða staði.
Sérstaklega er mér minnisstætt Grjótið við Tryggvagötu þar sem nú er American Style. Þessi staður varð þekktur fyrir tvennt: Dyraverðirnir klipptu bindi af þeim sem mættu með slíkan hégóma og Iron Maiden hélt þarna hroðalega teiti eftir gjörsamlega ógleymanlega tónleika í Laugardalshöllinni föstudaginn 5. júní 1992 sem var einmitt afmælisdagur trymbilsins Nicko McBrain. Þeir luku þessum tónleikum á stórvirkinu Run to the Hills og aldrei hef ég gengið út úr Höllinni í annarri eins andlegri uppljómun. Þetta var áður en Bruce Dickinson lét klippa sig og gerðist flugmaður hjá Iceland Express. Svona breytast menn.
Í Grjótinu spilaði líka oft hljómsveitin Stálfélagið (margir muna enn eftir Jonna bassaleikara, Jóni Guðjónssyni, sem ég hitti nú síðast í 10 11 í Lágmúla í síðustu viku) sem átti stórleik með félögum sínum og gjörsamlega tætti pússninguna af veggjunum. Einnig léku þar oft Jötunuxar sem áttu nokkra góða slagara eins og ‘Vertu með’ (gæti verið mottó hjá Samfylkingunni nú til dags).
Í minningunni var bara tvennt selt í Grjótinu, íslenskt brennivín og bjór. Þarna var minnsta mál í heimi að gubba á gólfið og ég man að þegar Iron Maiden hélt teitina góðu náði röðin fyrir utan staðinn nánast út í sjó. Ásgeir vinur minn Elíasson frá Ólafsvík varð svo frægur að komast þarna inn í leðurjakka með kögri og ræddi við afmælisbarnið Nicko McBrain. Ásgeir var samt ekki á tónleikunum.
Þetta var 92 fyrir mér. atlisteinn.is efnir hér með til minningasamkeppni um sumarið 1992. Sögur óskast sendar á atli@atlisteinn.is og verða að vera að mestu sannar. Skjóttu…ahhh… skjóttu! Regin Mogensen er þó beðinn að vera ekkert að rifja upp hinn svokallaða páskatúr 92, ég ætla ekki að láta banna síðuna alveg strax. Bráðum samt.