Ég er svo heppinn að vera kominn með gestaskrifara hér á síðuna en það er enginn annar en faðir minn aldraður (sem sést meðal annars á því að hann ritar sína pistla með z). Honum þykir mér fulltíðrætt um brennivín í pistlum mínum og birti ég hér siðbót hans algjörlega óritskoðaða. Það er Guðmundur Elíasson heimilislæknir sem ritar:
Nokkuð mikið þykir mér vera fjallað um görótta drykki í pistlum þínum. Þetta situr í netinu og gæti orðið þér fjötur um fót ef þú til dæmis sæktir um forsetaembættið. Því kem ég með tillögu um næsta pistil. Hún er svona:
Einn sunnudagsmorguninn ákváðum við hjónin (eða hjónaleysin) að sækja kirkju. Ég hafði í laumi hrifizt af trúarákafa Norðmanna og fann mig þyrsta í drottin. Við mættum frekar snemma og á móti okkur tók vandræðalegur prestur, sem sagði að meðhjálparinn væri veikur. Honum leizt þannig á mig, að hann taldi mig kjörinn til þess að hlaupa í skarðið. Ég tók því vel. Í kirkjuna tíndust nokkrar hræður, afskaplega fálátar og sinnulausar. Ekki tók betra við, þegar ég leit söngkórinn augum.
Gamlir, grindhoraðir karlmenn, sem höfðu greinilega verið höggnir eða blásnir, þegar berklarnir grasseruðu, og vansælar konur, greinilega með blöðru- og legsig, sem vísar voru til með að pissa niður úr söngloftinu við þenslu raddbanda. Úr þessu rættist. Ég sá, að ég þekkti alla sálmana sem syngja átti. Ég hóf upp raust mína, og þar sem barytonrödd mín var þjálfuð vel eftir veru mína í lögreglukórnum, nötraði kirkjan brátt af söng og allur söfnuðurinn tók undir. Eftir messu spurði presturinn hikandi hvort ég kæmi ekki næsta sunnudag. Ölvaður af stemningunni (athugið, ekki af vökva) játti ég því hiklaust. Næsta sunnudag var kirkjan fleytifull. Ég þarf ekki að tíunda framhaldið. Nú er ég meðhjálpari með fjórtán norskar krónur á tímann. Halelúja.
Athugasemd ritstjóra: Ég var 2. bassi í Lögreglukórnum you bastard.