Þessa raflínuturna vill norski raforkuframleiðandinn Lyse nú kaupa af bandarísku hönnuðunum Thomas Shine og Jin Choi í Boston og setja upp hérna í Rogaland. Það skemmtilega við málið er að turnarnir báru sigurorð af hólmi í hönnunarsamkeppni Landsnets í mars 2008 um raflínuburðarvirki fyrir íslenska náttúru en af ástæðum sem flestum er kunnugt um var bakkað út úr málinu áður en framkvæmdir hófust. Vefútgáfa Stavanger Aftenblad greindi frá þessu í gær. (MYND: Choi+Shine Architects LLC)
Shine og Choi greina frá því að arkitektastofa þeirra hafi hlotið verðskuldaða athygli eftir að myndir af turnunum komust í umferð. Það virðist hafa verið rólegt hjá þeim fram að því en þeir greina frá því í viðtali við Aftenbladet að heimsóknum á heimasíðu þeirra hafi fjölgað úr 20 á dag í 40.000 á örfáum dögum.
Það verður spennandi að fylgjast með því hvort Lyse komi til með að drita niður ‘íslenskum’ raflínuturnum hérna í nágrenninu í framtíðinni. Maður fyllist þjóðerniskennd.
Ég er búinn að ráða bót á því vandamáli sem hefur hrjáð mig síðan ég flutti til Noregs, það er að segja allt of stuttum vinnudegi og of miklum frítíma sem vill fara í drykkju hafi ég ekki þeim mun verðugri verkefnum að sinna. Ég nældi mér í aukavinnu á veitingastaðnum N.B. Sørensens Dampskibsexpedition við uppvask og byrjaði þar af krafti í gærkvöldi með vinnutíma 19 til miðnættis. Ég ætla að reyna að vera þarna tvö kvöld í viku og aðra hverja helgi. Þetta er stórfínt, þarna getur maður troðið í sig ókeypis veislumat eins og á sjúkrahúsinu en ólíkt því þarf ég ekkert að vera að hafa áhyggjur af einhverjum starfsmannamálum, niðurröðun sumarfría, kvörtunum, gráti og gnístran tanna, ég get bara vaskað upp og hugsað um eitthvað gáfulegt. Auk þess deilist þjórfé frá gestum jafnt niður á alla sem eru á vakt svo kjörin eru góð. Svona á lífið að vera.