Talsíminn – skemmtilegur samanburður

sminnNú get ég loks farið að bera saman verðskrár hjá Símanum og Tali þegar tveir mánuðir eru liðnir frá því að ég yfirgaf Símann eftir 13 ára viðskipti og gaf mig Tali á vald. Ég ritaði um þetta hér á síðunni á sínum tíma og greindi þá frá samviskubiti mínu vegna þess að yfirgefa fyrirtæki eftir öll þessi ár en ég er með afbrigðum íhaldssamur eins og kunnugir þekkja.

Skemmst er frá því að segja að reikningur fyrir heimasíma, nettengingu og tvo GSM-síma (áður var það bara einn en þegar við fluttum okkur milli þjónustuaðila bættum við síma frúarinnar við reikninginn) lækkaði úr 34.000 krónum í 22.000.

Ég tel mig ekki þurfa frekari vitna við. Það er leiðinlegt að segja það eftir öll þessi ár en Síminn virðist vera að okra miskunnarlaust á viðskiptavinum sínum. Fyrst Tal getur boðið okkur kjör sem eru svo gjörólík því sem Síminn býður hlýt ég að spyrja mig hvaðan ofurverðlagning Símans sé komin. Sé hægt að láta þjónustuna í té fyrir svo miklu lægra gjald spyr ég hvernig Síminn réttlæti sína gjaldskrá.

Ég snýst því á sveif með Tali og bendi skynsömum neytendum á að það fyrirtæki býður einfaldlega upp á góða þjónustu á þægilegu verði auk þess sem gjaldskrá Tals er með öllu skiljanleg en ég tek fram að ég hef aldrei skilið þá reikninga sem mér bárust á sínum tíma frá Símanum. Vísa ég þar í ummæli Sigmars Vilhjálmssonar í ágætri grein í Morgunblaðinu fyrr á þessu ári þar sem hann heldur því fram að dæmigerður Íslendingur skilji ekki símareikninginn sinn. Hann hafði rétt fyrir sér svo lengi sem ég telst til dæmigerðra Íslendinga.

Ég neyðist því til að lasta Símann fyrir verðskrá sem í besta falli telst út í hött en minnir í versta falli á verndargjöld mafíunnar.

Athugasemdir

athugasemdir