Það er fátt um fína drætti í pistlum hjá mér í dag. Í einhverju maníukasti um daginn bókaði ég mig á tveggja daga námskeið í presentasjonsteknikk, það er að segja framsögu, kynningarfyrirlestrum eða bara almennu bulli fyrir framan hóp af fólki. Þetta er á vegum háskólasjúkrahússins en haldið á einhverri café latte-markaðsfræðistofu uppi á Forus. Fyrri dagurinn var í dag og svona til að eyðileggja mánudaginn alveg fyrir manni er seinni dagurinn á morgun og þar með lokaverkefni. Þetta stingur algjörlega í stúf við norska hraðann sem er almennt enginn. Með eðlilegum norskum formerkjum hefði seinni dagurinn átt að vera í ágúst eða á næsta ári en hann er sem sagt á morgun. (MYND: Þetta er nýja almenna myndin mín sem verður notuð með pistlum sem erfitt er að finna einhverjar myndir með. Tekin hérna úti í garði um daginn og ekkert Photoshop-uð. Svona er ég bara.)
Lokaverkefnið er tíu mínútna fyrirlestur um sjálfvalið efni. Ég ákvað að hafa þetta bara einfalt og segja þeim allt um taekwondo. Núna er ég að skrifa þá geysilegu romsu og óvíst um málalok. Ég er alla vega búinn að ákveða að það verði engin Power Point-sýning með en bara fyrir fimm tímum átti móðir alls Power Points að líta dagsins ljós með málflutningi mínum á morgun. Ég bara nenni því ekki núna.
Fyrri dagurinn var reyndar skemmtilegur. Meðal verkefna var að bulla um okkur sjálf fyrir framan hópinn. Ég sagði sögu okkar í Noregi í grófum dráttum og viðurkenndi að við hefðum lært norsku meðal annars af Himmelblå-þáttum norska ríkisútvarpsins í fyrra og hitteðfyrra en það vakti mikla kátínu meðal viðstaddra. Þrátt fyrir mikið áhorf í Noregi á sínum tíma eru þessir þættir hálfgert feimnismál hér og þykja sýna hið sanna eðli Norðmanna í óþægilega réttu ljósi sem þeir og gera. Herregud!
Á morgun (í dag fyrir flesta sem þetta lesa) er einn mánuður í Helförina, ferðalag okkar til Íslands í sumarfrí. Það er eins gott að það verði ekkert öskuvesen á flugsamgöngum þann dag. Ég tek Norrænu með öllum þeim djöfulskap sem því fylgir ef það á að verða. Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur segir Grímsvatnagosið árið 1873 hafa staðið í sjö mánuði. Þetta kemur fram í viðtali á Vísi. Flugsamgöngur hafa verið með minna móti í þá daga. Hvað verður nú?
Talandi um flugsamgöngur verð ég að vísa á þetta frábæra viðtal Arnars Eggerts Thoroddsen við Bruce Dickinson Iron Maiden-söngvara sem flýgur heimshorna á milli með bandið á flugvélinni Ed Force One. Gamla Iron Maiden-húmornum er við brugðið.