Það er orðið heilagt

bombayÞetta var nú viðkvæðið í sveitum landsins fyrr á öldum þegar jólahátíðin gekk í garð með öllu sínu brauki og bramli (sem var nú ekki ýkjamikið þá). Nú er orðið alveg háheilagt hjá mér, ég hnýtti snyrtilegan endahnút á þessa mjög svo gefandi haustönn með því að leggja fram ritgerð um kanadíska boðskiptafræðinginn Marshall McLuhan núna í morgun og fram undan liggur löng og unaðsleg helgi, laus við stress, dauða og barlóm. (MYND: Bombay, Mercedes Benz ginheimsins.)

Jólarauðvínið er búið að sanna gildi sitt og var notað óspart við síðustu blaðsíður ritgerðarinnar í gærkvöldi. Það er létt og ferskt en örlítill vottur af gerbragði sem jafnar sig út við að hella því nokkrum sinnum á milli kúta. Við það tekur vínið í sig súrefni sem gefur því ferskari blæ…maður er bara farinn að tala eins og einhver léttvínsspekúlant, þetta gengur ekki.

Annars byrjaði fríhelgin vel, kaffibolli hjá sérstökum saksóknara í fríðum hópi lagagengis þeirrar stofnunar. Mér er nú ljóst í hvað allar þessar fjárveitingar til embættis sérstaks saksóknara fara: Þær fara í kaffivélina á staðnum, baunamyljandi kjarnorkuvítisvél á stærð við borgarísjaka. En ágætt kaffið úr henni.

Klukkan 18:00 í kvöld er svo komið að þeirri stund sem ég hef beðið með eftirvæntingu síðan í september, jólahlaðborð Argentínu steikhúss. Það er nú ekki eins og maður detti inn í slíkan lúxus daglega í kreppunni, við fórum ekki í fyrra og borðuðum held ég síðast á Argentínu um verslunarmannahelgina í fyrra. Mér finnst alveg einstaklega hátíðlegt að borða á Argentínu. Ómissandi forliður að borðhaldinu er tvöfaldur gin & tónik í leðursófanum við arininn. Það eru mín jól…eða svona nánast.

Jólahlaðborðið á Argentínu er suddalegasta átveisla sem ég hef upplifað og alltaf geri ég sömu mistökin – sprengi mig í forréttaborðinu. Svo sit ég með æluna í hálsinum og horfi á fyrsta aðalréttadiskinn fyrir framan mig, hlaðinn kalkúni eða hamborgarhrygg, og er gjörsamlega búinn á því. Ég mun reyna að fyrirbyggja þetta í kvöld. Kannski er rétta lausnin að byrja á því að hlaða í sig creme brulée, skella sér svo í hamborgarhrygginn og enda á forréttunum.

Alla vega hlakka ég mikið til að mæta á staðinn í kvöld og taka fyrsta sopann af gininu. Þá verður allt rétt.

Athugasemdir

athugasemdir