Það er ekki oft…

laddi…sem íslenskar kvikmyndir skilja eitthvað eftir hjá mér en með sanni má segja að Jóhannes, sem skartar Ladda og fleira góðu fólki, hafi gert það með stæl í kvöld.

Ég vissi svo sem ekki við hverju ég átti að búast, hafði lesið bók Helga Ingólfssonar, Andsælis á auðnuhjólinu, sem myndin er byggð á og tekið bakföll af hlátri en hver veit við hverju maður á þá að búast á tjaldinu? Helgi kenndi sögu við Menntaskólann í Reykjavík þegar ég var þar við nám. Hann var býsna vinsæll kennari, harðskeyttur, brosmildur og fylginn sér.

Einhvern veginn skilaði gamansemi Helga sér mjög vel yfir á tjaldið fyrir utan að ég hefði viljað sjá hagmælta lögregluþjóninum gert hærra undir höfði (þeim sem sagðisjálfs er höndin hollustog glotti við tönn). Í bókinni sparaði sá ekki málshættina en hafði þá oft rangt eftir og varð af hin besta skemmtun.

Ég hef ekki skemmt mér svona vel í kvikmyndahúsi síðan ég sá Naked Gun í Háskólabíói í apríl 1989 og mega aðstandendur Jóhannesar vera sáttir með stykkið. Þá tek ég heilshugar undir með vinnufélaga mínum, Hermanni Gunnarssyni á Bylgjunni, að löngu er tímabært að Laddi fái aðalhlutverk í kvikmynd. Og ekki spilaði kallinn illa úr því. Eins hrósa ég Stefáni Karli Stefánssyni fyrir frábæra frammistöðu í hlutverki lyfsalans á Porsche-bifreiðinni. Hann er náttúrulega vanur því að leika kantmenn samfélagsins eftir frábæra frammistöðu í Latabæ.

Ég hvet sem flesta Íslendinga til að skella sér á Jóhannes og lyfta sér upp úr Icesave, svínaflensu og kreppurausi. Þorsteinn Gunnar Bjarnason leikstjóri á þarna algjöran haustsmell sem virkilega gaman er að gleyma sér yfir. Og þið sem hélduð að Laddi gæti ekki leikið annað en Eirík Fjalar og Skúla rafvirkja…you were wrong.

Athugasemdir

athugasemdir