Þá er maður hálfnaður í sjötugt

hellingMánudaginn 30. mars klukkan 15:33 að staðartíma fyllti ég árin 35. Þetta var sérstök stund en ánægjuleg. Eftir önnur 35 verð ég annaðhvort staddur í kistu ofan í jörðinni, hægt og rólega að breytast í drullu; slefandi, en brennivínsþyrstur, öldungur á viðeigandi stofnun; fílhraustur djöfull á eftirlaunum eða bæjarróni í Mosfellsbæ. Ég tel um það bil fjórðungslíkur á hverju fyrir sig. Myndin hér við hliðina er tekin þegar ég helli í glösin fyrir afmælisveislu sem mældist á Richter og fór fram hér í Mosó síðastliðinn laugardag, 4. apríl.

Það er við hæfi á tímamótum sem þessum að staldra við og segja nokkur orð. Samt datt mér ekkert í hug til að segja í veislunni svo ég þagði bara og hlustaði á aðra. Þeir töluðu flestir um barneignir, deyjandi ættingja eða velmegunarsjúkdóma. Einn og einn sagðist harma að hafa keypt Range Rover HSE Sport árið 2007. Hvaða máli skiptir það núna hvað menn keyptu árið 2007? Það var alveg jafn-mikið 2007 að kaupa það á þeim tíma. Sjálfur keypti ég hús í Mosfellsbæ árið 2007 en það var ekki í einhverri góðæris-maníu heldur einfaldlega af því að við áttum, og eigum reyndar enn, tvær íbúðir í miðbæ Reykjavíkur sem hefðu fullkomlega staðið undir þessari fjárfestingu…hefðu þær selst.

Þegar ég hugsa til tímabilsins 2004 til 2007, þegar Íslendingar keyptu verslanir í Kaupmannahöfn og Lundúnum eins og ég kaupi gin & tónik, get ég ekki annað en minnst frábærrar tilvitnunar rithöfundarins og blaðamannsins Hunters S. Thompson úr bókinni (og síðar kvikmyndinni) Ótti og óbeit í Las Vegas (Fear and Loathing in Las Vegas (1971)): ‘And now, less than five years later, you can go up to a steep hill in Las Vegas and look west. And with the right kind of eyes, you can almost see that high water mark, that place, where the wave finally broke and rolled back.’

Þetta fengum við Íslendingar að sjá án þess að líta vestur að nokkru ráði. Okkar alda sem valt til baka til sjávar voru flatskjáir, jeppar og hjólhýsi, alda Thompsons og hans kynslóðar var LSD-bylgjan í San Francisco árið 1965, von um heimsfrið og gjörbylt heimsmynd með stefnu Richards M. Nixon bandaríkjaforseta frá 1968 og þar til tveir blaðamenn hjá Washington Post veltu honum af stalli árið 1974.

Hvort er verra eða betra ætla ég mér ekki að dæma um en þegar maður er hálfnaður í sjötugt er maður tilneyddur að skrifa eða segja nokkur orð um hvað fyrri helmingur ævinnar skildi eftir. Það var heilmikið.

Athugasemdir

athugasemdir