Sweet Caroline…

ma‘Ég gekk út í sólina með bunkann undir hendinni og hafði tæplega liðið eins vel áður.’ Þetta stendur ritað í dagbók mína 2. júní árið 2000 og fjallar um það þegar ég gekk með tólf eintök af BA-ritgerðinni minni út úr Háskólafjölritun og fór að gera eitthvað annað en að hanga ofan í kjallara yfir heimildaskrám og neðanmálsgreinum. Ungur og vitlaus auðvitað. (MYND: Kvikindið glóðvolgt úr prentsmiðjunni, 70 síður af minni persónulegu þjáningu.)

Ég get alveg vottað það að tilfinningin var ekkert síðri í dag þegar ég gekk út úr þessari sömu Háskólafjölritun með bunka af MA-ritgerðinni minni sem hefur kostað mig blóð, svita, tár og allt of mikið rauðvín síðustu mánuði. Ég er enn að reyna að ná utan um þá hugmynd að þetta liggi hérna á borðinu hjá mér og ég muni leggja þetta fram á skrifstofu félagsvísindasviðs í fimm eintökum á morgun og kveðja Háskóla Íslands í þriðja skiptið.

Þetta var ótrúlega lítið maus í þetta sinn, ég slapp með fjögurra tíma yfirlestur og smáréttingar niðri í fjölritun samanborið við heilan dag fyrir 10 árum þegar við ætluðum aldrei að ná forsíðunni réttri auk þess sem Word 97, sem þá var, plagaði mig með öllu því sem það forrit getur lagt á venjulegt fólk. Þetta hefur lagast núna en gamla Word-ið færði neðanmálsgreinar til gjörsamlega að geðþótta og hlustaði almennt ekki á rök.

Núna, árið 2010, er þetta bara fært yfir í PDF-skjal og maður látinn laga allt til í því. Þessu fylgja almennt minni leiðindi. Mér fannst ég því eiginlega sleppa of vel þegar ég var bara kominn með þetta í hendurnar fyrir klukkan þrjú í dag. Ég bíð enn eftir einhverju óvæntu áfalli. Það getur svo sem alveg komið enn þá, verklegi hlutinn fylgir hverju eintaki ritgerðarinnar á geisladiski og Samskipti eru að prenta límmiða á diskana sem eiga að vera tilbúnir um hádegi á morgun. Þetta gæti klikkað. Ríkharður tæknimeistari Miðnets annast fjölföldun efnisins á geisladiska og hann klikkar nú seint. Ég ligg því á bæn, þetta hefur einhvern veginn gengið of vel.

En nú er komið að því sem ég þóttist hlakka svo gríðarlega til að takast á við þegar ég var að klikkast yfir ritgerðinni…að pakka allri búslóðinni ofan í kassa. Eins gott að það verði gaman því hingað kemur 40 feta gámur á föstudaginn og staldrar við fram á þriðjudag í næstu viku. Á þeim tíma þarf maður sennilega aðeins að bretta upp hendurnar eins og Steingrímur J. sagði í þinginu um daginn.

Við erum búin að tryggja okkur leiguíbúðina í Stavanger, greiddum 9.000 norskar krónur í leigu fyrir maímánuð í dag. Þetta kostaði auðvitað að leggja þurfti fram leigusamning í bankanum til sannindamerkis og ég veit ekki hvað. Maður bíður bara eftir því að úthlutunarnefnd bifreiða verði vakin til lífsins á ný. Jafnvel síldareinkasala ríkisins.

Athugasemdir

athugasemdir