Svo þykist maður fylgjast með…

gosiiÞetta er nú ekki hægt, við fréttum af Grímsvatnagosinu frá Nýja-Sjálandi!!! Þar býr frænka hennar Rósu og hún setti myndir af ósköpunum á Facebook. Við uppgötvuðum þetta þegar við kveiktum á tölvum hér með kaffibollanum klukkan 14:24 að norskum tíma í dag. Þá hafði gosið staðið í um 18 klukkustundir og við höfðum ekki grænan grun. Svona er þetta.

Annars óska ég íslenskum fjölmiðlum til hamingju með að fá loksins verðugri verkefni en eilíft tuð um fiskveiðistjórnun og kjarasamninga. Norskir fjölmiðlar eru mjög áhugasamir um gosið og fjalla efstu fréttir á vefjum Stavanger Aftenblad, NRK, Aftenposten og VG allar um það. Stavanger Aftenblad fjallar um nýjustu spár um það hvenær öskuskýið nái til Noregs en það er talið munu koma inn í norskt flugstjórnarsvæði seint í kvöld. Aldrei að vita nema maður fái að anda að sér rammíslenskri ösku með hægum andvara næstu daga.

Heimsendaspár Harold Camping fá byr undir báða vængi en gosið hófst einmitt upp úr klukkan sex í gærkvöldi. BBC og fleiri fjölmiðlar hafa reynt að ná sambandi við Harold í dag án árangurs. Sennilega er hann þegar kominn til himnaríkis ásamt öðrum útvöldum.

Ellefta maí í fyrra munaði litlu að við kæmumst ekki með flugi til Noregs frá Keflavíkurflugvelli. Það rétt slapp fyrir horn. Nú spyrjum við okkur hvort við komumst til Íslands 24. júní næstkomandi. Ég ætla rétt að vona það, við eigum pantað borð á Argentínu daginn eftir að við komum!!!

Athugasemdir

athugasemdir