Um þessar mundir er hið norska fellesferie í algleymingi. Nánast allir eru í sumarfríi sem sagt. Þetta er mun áþreifanlegra fyrirbæri hér en á Íslandi, allt samfélagið fer hreinlega í dvala. Strætisvagnarnir eru á sumaráætlun frá 15. júní til 20. ágúst, þá fækkar ferðum um helming og varla er hægt að komast neitt bíllaus nema skipuleggja ferðalagið vel. (MYND: Á Madlaveien á leið frá Sola til Stavanger rétt eftir vinnu. Þarna er alla jafna bíll við bíl á þessum tíma.)
Mest afgerandi í samanburði við Ísland eru lokanir fyrirtækja í sumarfríinu. Fjöldi atvinnurekenda lokar hreinlega bara dyrunum í tvær, þrjár eða fjórar vikur í júlí ef viðkomandi atvinnugrein leyfir það. Þá er ekkert verið að ráða sumarafleysingafólk heldur bara lokað. Merkilegast finnst mér að nokkuð er um að veitingastaðir geri þetta. Á China Wok, stað sem var í uppáhaldi hjá okkur þegar við bjuggum í Stavanger, er bara settur miði út í glugga í tvær vikur í júlí þar sem útskýrt er að starfsfólkið sé í sumarfríi og fólk geti bara étið eitthvað annað (þetta síðasta stendur reyndar ekki). (MYND: Sjálf E39 á svipuðum tíma. Ég bíð bara eftir að sigra í World Press Photo með þessari.)
Það þægilegasta við þetta allt saman er hve auðvelt er að komast leiðar sinnar þegar maður er ekki í strætó en sjálfur akandi. Rósa er með fyrirtækisbíl fjórðu hverja viku þegar hún er á bakvakt og getur þurft að hlaupa til og afgreiða einhverjar sendingar. Alla jafna verðum við að leggja af stað frá Sandnes klukkan 07:00 ef við ætlum að treysta á að vera komin í vinnu í Sola klukkan átta. Ef við erum fimm mínútum of sein er ösin byrjuð og þessir 17 kílómetrar geta tekið allt að klukkutíma. (MYND: Ein til uppfyllingar og gamans frá Gladmat í gær. Áhöfn eins af skemmtiferðaskipunum tekur sig til og málar akkerið í stoppinu í Stavanger. Gamla nýtnin.)
Ástandið er svo enn verra á heimleið og liggur við að borgi sig að sitja bara í vinnunni og lesa til klukkan 17 ef ekki næst að bruna af stað á mínútunni 16:00 og helst aðeins fyrr. Við erum með bílinn þessa viku og það er alveg ævintýri að keyra í hvora áttina sem er frá Sola, til Sandnes eða Stavanger. Þetta er bara eins og að vera á ferð um miðja nótt. Í mesta lagi tvær vikur eru eftir af þessum rólegheitum og best að njóta þessara einstöku samgöngutækifæra í botn fyrst maður er nú búinn í fríi sjálfur.