Hér hefur verið einmuna veðurblíða síðan 17. maí hellti úr skálum sínum yfir landsmenn og rætt var lítillega um í síðasta pistli. Í gær og í dag skein sól í heiði og nálgaðist hitinn mín persónulegu þolmörk í vinnunni í dag. Þá hjálpar að vera að vinna við opið gin Norðursjávarins og fá ferskan og svalandi blæ framan í sig annað slagið.
Gærdagurinn fór að einhverju leyti í útivist. Við litum í heimsókn til þeirra Elíasarfeðga og fjölskyldu en þeir búa efst í sama hverfi og við, alveg uppi á fjallinu austan megin við Gandsfjorden og þaðan er nú útsýni. Ólýsanlegt var að horfa út með firðinum til Stavanger og beint vestur yfir akrana í Sola. Þá var skyggni til suðurs ótakmarkað og sá til endimarka Sandnes og áfram til Klepp og Bryne. Myndin segir svo sem ekki mikið en þarna glittir í fjörðinn og akkúrat bak við mig er miðbærinn í Sandnes. Þetta var mikið sjónarspil, svæðið í kringum bæinn er tilkomumikið á sumrin svo ekki sé meira sagt.
Undirbúningur brúðkaups okkar í júní er kominn á lokastig og loksins, eftir eitt ár, búið að panta allt og raða nánast öllum tímasetningum niður. Ljóst er þó að vikan frá því að við komum til Íslands og fram að brúðkaupsdegi verður ekki beint í anda þess sem fólk flest kallar sumarfrí. Núna um helgina tókst okkur loks að velja og panta ljósmyndara en það verkefni hefur setið á hakanum mánuðum saman. Þá er það sérstakt gleðiefni að Robbi vinur minn á rakarastofunni Carter í Hafnarfirði féllst á að framkvæma sjálfa brúðkaupsklippinguna.
Ég nánast bjó í stólnum hjá Robba árin 1997 – 2001 og átti hann meðal annars heiðurinn af hausnum á mér fyrir aldamótadjammið ógurlega áramótin 2000 – 2001, aflituðum hanakambi. Ég fór í mína síðustu klippingu hjá Robba einhvern tímann um vorið 2001 og hef ekki farið í klippingu síðan enda ekki haft snefil af hári á hausnum þar til nú. (MYND: Ég með kambinn frá Robba á gamlárskvöld 2000, við upphaf nýrrar aldar. Með mér á myndinni er Birgir Hákon Valdimarsson lífskúnstner úr Garðabæ.)
Eftir allan þennan ógurlega undirbúning fyrir athöfn og veislu, pöntun á veitingum, fötum, ljósmyndun, klippingu, litun, lagningu, vöxun bakhára (Rósa fær nú reyndar að dunda sér við hana) og ég veit ekki hvað rann upp fyrir okkur nöturleg staðreynd: Við erum ekkert farin að plotta hvar við ætlum að verja brúðkaupsnóttinni. Við erum bundin við höfuðborgarsvæðið eða að minnsta kosti vegalengd sem er fjárhagslega skynsamleg og yfirstíganleg með leigubifreið frá veislustað. Sumarið 2012 verður víst sett nýtt heimsmet í komu ferðamanna til Íslands og hótel borgarinnar ekki beint galtóm um helgi á mótum júní og júlí. Þetta gæti sem sagt orðið spurning um að maður endi dauðuppgefinn eftir stóra daginn með gin og tónik í bolla á Hjálpræðishernum eða tjaldstæðinu í Laugardal. Nú gildir að vera opinn fyrir ótroðnum slóðum.