Sumarfrí – lífið sjálft kviknar

p7130030Í dag, þriðjudaginn 4. ágúst, er formlega fyrsti dagur sumarfrís ársins 2009 hjá okkur. Það væri rætin lygi ef ég héldi því fram að þessa hefði ekki verið beðið með eftirvæntingu í allt sumar. Margir spyrja mig hvað ég sé að þvælast í sumarfrí svona seint en það er einmitt þungamiðjan í þeirri nautn sem sumarfríið veitir mér. Nautnafrestun (e. delayed gratification) er fyrirbæri sem margfaldar alla góða hluti. Það að bíða eftir sumarfríinu í allt sumar gerir fríið að miklu meira en fríi, það gerir það að hreinni endurfæðingu. Hvað er indælla en að vera að fara í frí þegar allir vinnufélagarnir eru að koma úr fríi? (MYND: Þessi mynd er tekin í júlí 2007 í sumarbústað föður míns og konu hans í Svínadal. Það verður að segjast að hún er ótrúlega 2007. Meðan allt lék í lyndi!)

Þá er einnig gott að vera búinn að þrauka gegnum sumargúrkuna svokölluðu sem bandarískir fjölmiðlamenn kalla silly season. Þetta er tímabilið sem flest þjóðfélög nánast stöðvast vegna sumarfría og ekki rassgat er í fréttum. Það getur verið hvort tveggja leiðinlegt og skemmtilegt að vera blaðamaður á þessu tímabili. Leiðinlegt vegna þess að maður er oft í stökustu vandræðum með að kreista fram fimm mínútna fréttatíma fyrir morgunfréttir Bylgjunnar klukkan sjö. Skemmtilegt vegna þess að maður getur leyft sér mun meira í hressandi fréttum um að kona hafi komið 34 vinnufélögum á sjúkrahús með lélegu ilmvatni eða að ítalskt veitingahús hafi rukkað japönsk hjón um 130.000 kall fyrir humar og verið lokað í kjölfarið.

Gunnar Reynir Valþórsson blaðamaður hleypur í skarðið fyrir mig á meðan ég er í burtu og ég efast ekki um að þeir Gissur Sigurðsson sjái þjóðinni fyrir öllu því sem hún þarf á að halda í síkólnandi morgunsárið. Nú er nefnilega farið að hausta aftur og eins gott fyrir mig að hvílast vel í fríinu þar sem í ágústlok skellur á mér vinna og síðara árið í meistaranámi í blaðamennsku. Samhliða þessu mun ég sennilega leggja stund á nám í köfun við Köfunarskóla Íslands svo ég standi nú að einhverju leyti betur að vígi þegar við flytjum héðan af landi brott næsta sumar og gefum skít í Icesave og annað rugl sem er að sökkva Íslandi.

En hvað á að gera í sumarfríinu? Eldsnemma á fimmtudag leggjum við upp héðan og verðum í Stykkishólmi klukkan 08:30. Þaðan tökum við hinn nafntogaða Baldur til Flateyjar og eigum nótt á hótelinu þar, sem býður af sér góðan þokka miðað við hvað lesa má á lýðnetinu. Daginn eftir siglum við áfram til Brjánslækjar og ökum þaðan í striklotu til Dalvíkur. Þar eigum við heimboð hjá snillingunum og vinnufélögum mínum Svanhildi Hólm Valsdóttur og Loga B. Eiðssyni í fiskisúpu á hinu svokallaða fiskisúpukvöldi. Daginn eftir upplifum við í fyrsta sinn Fiskidaginn mikla á Dalvík og lifum í vellystingum hjá Úlfari Eysteinssyni, yfirmatreiðslumeistara hátíðarinnar. Á sunnudegi er ekið frá Dalvík áleiðis til Akureyrar þar sem væntanlega verður tekin ein nótt og að sjálfsögðu snætt á Bautanum. Gamli smiðjuborgarinn verður að líkindum fyrir valinu.

Þá má búast við einni nótt á Mývatni og annarri í Hallormsstaðaskógi (e. Leaning Worm Forest) en á miðvikudeginum komum við á ný til sælureitsins Reyðarfjarðar þar sem Ásgeir og Jóna Dís, okkar frábæru gestgjafar síðan um hvítasunnuhelgina, taka við okkur á ný. Þar verður auðvitað engin miskunn sýnd í drykkjunni og hvítasunnuhelgarpakkinn endurtekinn að einhverju leyti. Þá má geta þess að keppnin Austfjarðatröllið hefst einmitt á meðan við dveljum í bænum svo ég geri ráð fyrir að keppa í dvergakasti og glasalyftu sem hvort tveggja eru ævafornar greinar.

Verði ég ekki kominn inn á meðferðarstofnanir að þessu loknu er ein nótt ráðgerð í Skaftafelli og sennilega ein á heilsuhælinu í Hveragerði eða á Vogi ef ég kemst þá svo langt. Sem sagt, dúndursumarfrí fram undan og ekkert gefið eftir í að velja íslenskt og ferðast innanlands. Lesendur atlisteinn.is, sem nú skipta þúsundum og tengjast síðunni frá níu þjóðlöndum, eru sem sagt beðnir velvirðingar á því að þetta verður sennilega síðasti pistillinn í bráð vegna sumarfría en fastlega er gert ráð fyrir að öflug þjóðmálaumræða rísi hér á ný kringum 18. ágúst. Show no Mercy!!!

Athugasemdir

athugasemdir