Sumarfrí 2014

BúlgaríaÉg get ekki skorast undan mínum árlega sumarfríspistli þótt hann hafi fram að þessu aldrei beinlínis fjallað um neitt af viti. Næst þegar ég skrifa eitthvað hér verð ég sennilega annaðhvort í meðferð eða búinn að plögga mér við detox-vélina hennar Söndru Lárusdóttur Garðabæjarvinkonu, slíkur verður ólifnaður næstu vikna. Þó er brotið blað í sögu minna sumarfría í ár þar sem þetta verður fyrsta skiptið sem tekið verður á stálinu í fríinu. Við erum búin að landa samningum um mánaðarkort við hann Ralph hjá Fitness SF sem er tæplega 3.000 fermetra æfingastöð í SoMa eins og þeir kalla það (South of Market). Reyndar er nú Soma líka til hérna í Sandnes en það er nú eiginlega bara bóndabær. Fimmtugsaldurinn er alla vega köld staðreynd og ef ég ætla ekki að koma til baka með Cargolux þarf aðeins að sinna skrokknum mitt í botnlausu óhófinu. (MYND: Búlgaría í ágúst 2007. Fínt frí það, keyptum Lödu, það var svo 2007.)

Fleira er nýtt í pakkanum, þar sem einnig er um síðbúna brúðkaupsferð að ræða og við ætlum að skreppa eina 8.300 kílómetra að heiman verður þetta sumarfrí heilar fjórar vikur auk morgundagsins en þriggja vikna frí hafa verið hámarkið fram að þessu. Nú verður spennandi að sjá hvort sú gamla tugga mín og kenning, að maður hefði virkilega þurft eina viku af fríi í viðbót, reynist sönn eða hvort því verði einmitt öfugt farið og skelfingin verði enn meiri að detta með skelli inn í reglubundna hrynjandi atvinnulífsins og hversdagsins að nýju. Það er að minnsta kosti alveg á tæru að ég verð rétt einu sinni búinn að steingleyma öllum lykilorðum, PIN-númerum og öðrum daglegum runum þegar þessu verkefni lýkur.

Ég reikna með að standa vaktina á Facebook næsta mánuðinn og leyfa söfnuðinum að njóta þess með mér sem hægt er að greina frá í myndum og texta. Við verðum alvöru túristar núna og erum búin að munstra okkur í ótal ferðir. Alcatraz er auðvitað skylda, heill dagur í Yosemite-þjóðgarðinum, dagsferð í hin rómuðu vínræktarhéruð Kaliforníu og vínsmökkunarnámskeið með, tvær siglingar, Las Vegas og góður skammtur af rokktónleikum (sorrý Skapti, ég virðist ekki ætla að hitta á Deicide í þessari ferð en Aerosmith, ZZ Top og Deep Purple fá að láta ljós sín skína).

Hugheilar kveðjur til allra og auðvitað sérstaklega þeirra sem eru að stíga út í sumarfríið sitt þessa dagana. Þið hin sem voruð að koma úr fríunum ykkar….ja, þið eruð bara óheppin 🙂

Athugasemdir

athugasemdir