Sumar dagsetningar eru erfiðari

GG-2009Það sem af er árinu hef ég sveist blóðinu við að tryggja viðveru mína á 25 ára endurfundum gagnfræðinga vorsins 1989 frá Garðaskóla í Garðabæ. Reyndar var þar á ferð enn eitt verkfallsvor íslenskra kennara svo ef til vill telst vafasamt að tala um gagnfræðinga, þessi hátt í 150 manna árgangur tók engin próf að gagni þarna í verkfallinu sem sumum fannst nú sennilega bara allt í lagi á þessu stigi æsku og kæruleysis. (MYND: Frá endurfundum 3. október 2009.)

Þrátt fyrir verkfallið (eða kannski vegna þess, hver veit?) var þessi árgangur alla tíð ákaflega samheldinn og mörg sterk bekkjartengslin kviknuðu þegar á neðri skólastigunum, í Flataskóla og Hofsstaðaskóla. Eins hélt stór hluti hópsins áfram námi saman við Fjölbrautaskólann í Garðabæ svo allt myndar þetta tímaskeið í raun eina fallega heild.

En það var nú ekki ætlun mín að gráta hér fögrum tárum yfir ljúfsárum æskuminningunum heldur segja af þeim djöfulskap sem ég hef mátt ferðast gegnum til að geta verið viðstaddur 25 ára útskriftarafmælið okkar sem haldið verður hátíðlegt 17. maí í vor en hópurinn hefur komið samviskusamlega saman á fimm ára fresti allar götur síðan við lukum 9. bekk sem í þá gömlu góðu daga taldist efsta stig íslenskra grunnskóla.

Auðvitað var ljóst að svona þýðingarmikill viðburður myndi lenda á vaktaviku hjá mér, þannig er það bara alltaf þegar þýðingarmiklir viðburðir eiga í hlut og lítið við Guðbrand Benediktsson og annað gott fólk í undirbúningsnefnd ársins að sakast. Hins vegar þarf verulega slæmt karma til að laugardaginn í vaktavikunni beri einmitt upp á þjóðhátíðardag Norðmanna og ekkert minna en bölvun Tutankhamons til að hann beri upp á þjóðhátíðardag Norðmanna árið 2014 þegar þeir fagna einmitt 200 ára afmæli sinnar fyrstu stjórnarskrár sem leit dagsins ljós á eins konar norskri útgáfu af Þjóðfundinum mikla við Eidsvoll vorið 1814.

Til að bjarga sér af vakt á mínum vinnustað skiptir maður við einhvern. Þeir sem skipta innbyrðis þurfa að búa yfir sambærilegri hæfni og hafa réttindi til að nota sömu tæki. Þetta er yfirleitt ekki vandamál en nú bættist það við hjá mér að skiptimiðinn minn gat heldur ekki verið þjóðernisupprunalegur (e. ethnic) Norðmaður en hefði sloppið til aðfluttur með síðar áunnið norskt ríkisfang. Ég ákvað til öryggis að halda mig bara alveg frá Skandinavíu og hjólaði því fyrst í Kosovo-Albanann U… sem er allur hinn greiðviknasti og mjög við alþýðuskap. Þetta var í janúar. U… sá ekkert þessu til fyrirstöðu og málið var dautt…hélt ég.

Í byrjun mars rættist hins vegar langþráður draumur U… og honum veittist staða í farmskrárdeild er hann hafði sóst eftir um skeið. Datt hann þar með inn á allt annað vaktakerfi og öll mín plön fóru á hliðina með kurteislegum og tárvotum tölvupósti frá honum. Ég hjólaði þá í Barbados-eyinginn E… sem er svo ónorskur að hann talar sænsku en þar í landi bjó hann lengst af. E… leist mjög illa á öll skipti sem leiddu til vinnu hjá honum 17. maí þar sem hann er jú kvæntur Norðmanni og þau hjónin ætluðu svo sannarlega að klæða sig í bunad og drekka sig rænulaus þennan stóra þjóðhátíðardag enda eðlilegt fólk.

Þarna var nú farið að syrta verulega í álinn og ég farinn að líta ískyggilega mikið til stóra geðspítalans við austurhluta Noregs eins og hún er stundum kölluð í gamni, Svíþjóð sem sagt. Ég hafði því samband við Svíann R… sem starfar í fyrrverandi deildinni minni og viti menn, eftir stuttan umhugsunarfrest varð fégræðgi hans drykkjusýkinni yfirsterkari en 17. maí er einn þeirra helgidaga sem launast með 200 prósenta yfirvinnuálagi til handa þeim sem þá standa vaktina.

Og þannig vildi það til, loksins í gær, að mér tókst að tryggja það endanlega að stysta Íslandsheimsókn mín fram að þessu, nákvæmlega einn sólarhringur, verði að veruleika. Mikið hlakka ég til.

Athugasemdir

athugasemdir