Styrkur og einbeittur drykkjuvilji á októberhátíð NorSea Group

oktoberfestSvokallað oktoberfest NorSea Group fór fram á föstudag. Reyndar var ekki um alla samsteypuna að ræða heldur eingöngu stöðvarnar hér í Stavanger sem saman mynda dótturfyrirtækið NorSea AS. Í raun er þarna um að ræða árshátíð fyrirtækisins en þó ekki þar sem þessi samkoma er eingöngu haldin annað hvert ár. Hvað sem því líður er þetta hin þéttasta sukkhátíð þar sem starfsmönnum og mökum þeirra er boðið upp á mat og áfengi. (MYND: Svíinn Rasmus Börjeson var í góðum gír þarna ásamt okkur Rósu.)
oktoberfestii
Margir voru búnir að hella aðeins upp á áður en mætt var á skemmtistaðinn Hall Toll niðri á Skansegate (sem er eiginlega á Skagen fyrir þá sem þekkja til) og lágu menn því brátt í óviti af mungáti eins og Snorri segir einhvers staðar í konungasögum. Svartastir voru Svíarnir Rasmus Börjeson og Jonas Knutsson ásamt hinum norska Jan Erik Bergli en þeir félagar höfðu verið á vinnuvélanámskeiði þá um daginn og lauk því þegar um klukkan 13. Almennt er ekki ætlast til að menn mæti aftur til vinnu á námskeiðsdögum og hófu þeir piltar því þegar stífa drykkju heima hjá Rasmusi og Jonasi og höfðu uppi miklar frásagnir af henni á Facebook sem vinnufélagar með nógu tæknilega síma gátu fylgst með frá starfsstöðvum í Tananger. Hlaust af þessu hin besta skemmtun auk þess sem drykkjuandinn efldist allur mjög hjá hinum vinnandi og klæjaði menn mjög í að klukkan slægi fjögur. (MYND (uppi): Þarna hefur Kenneth bæst í hópinn, vel maríneraður.)
oktoberfestiii
Áhrif þessa teygðu sig að sjálfsögðu vel og rækilega til mín en ég hafði ætlað að reyna að halda í einhvern anga heilbrigðs lífernis með því að taka stutta en öfluga axla- og bicepæfingu eftir vinnu og storma svo heim í upphitun. Þetta tókst ekki betur en svo að aginn brast um leið og ég var kominn inn í afgreiðsluna í Elixia. Ég lét því nægja að skella mér í snögga sturtu og skeiðaði svo í Vinmonopolet þar sem ég birgði mig upp af vodka og hvítvíni auk þess sem ég greip nokkrar dósir af Grevens-cider með perubragði og byrjaði strax að bergja á þeim guðaveigum í strætó á leið heim þrátt fyrir allsherjardrykkjubann í strætisvögnum Stavanger. (MYND: Hinn geðþekki Nils Bjarne Mosnes hefur löngum kunnað að handleika bokkuna.)
oktoberfestiv
Mæting á Hall Toll var boðuð klukkan 18:30 og borðhald strax klukkan 19:00 svo upphitun heima varð stutt og stíf. Við dúndruðum Falco heitnum á fóninn (eða á YouTube reyndar, öll rómantík horfin úr tónlistarflutningi nútímans) og skvettum í okkur kokteilum, vodka og cider eins og enginn væri morgundagurinn. (MYND: Skrifstofupiltarnir Jan Egil og Espen voru harðir í miðinum líkt og aðrir.)

Við tókum svo leigubíl niður eftir og ölvunin skall á okkur eins og þrjátíu tonna toghleri þegar við stigum inn í salinn. Við lentum á borði með meðalöflugum fyllibyttum enda kom fljótt í ljós að allar götur glasaáfyllingafólks að borðinu lágu til okkar. Nýi forstjórinn, sem hóf störf sama dag og ég, 1. september, hélt ágæta ræðu (minnir mig) og eftir það var liðinu hleypt í hlaðborð sem samanstóð mikið til af kartöflum. Auk þess var um að ræða pylsur og kjúkling sem var bara mjög fínn. Norðmenn hafa frekar sérstakar hugmyndir um veislumat á árshátíðum og jólahlaðborðum og er hann töluvert frábrugðinn því sem Íslendingar eiga að venjast en það er auðvitað bara liður í því að kynnast hinni framandi menningu Skandinava, hvað getur maður sagt?

Svo leið kvöldið bara í taumlausri ölvun eins og búast má við á samkomum af þessu tagi og ekkert meira um það að segja. Þetta var mín fyrsta drykkja með vinnufélögunum ef frá er talinn hinn gallharði Ólafsfirðingur Steini kranamaður sem er nágranni minn og ég þekkti áður en ég hóf störf hjá NorSea.

Fyrir utan þennan mikla hrunadans norrænnar drykkjumenningar er ekki mikið að frétta þannig séð. Í dag lukum við samsetningu IKEA-húsgagnanna sem sagt er frá í síðasta pistli og sitjum, þegar þetta er skrifað, full hamingju í nýju skrifstofuaðstöðunni okkar. Rósa er að tala við pabba sinn á Skype og segist hann vera orðinn ‘ónæmur á pasta’ hvað sem það táknar. Merkilegt.

Brúðkaupsplön sumarsins 2012 eru öll að taka á sig mynd. Ég hef nú tryggt mér skemmtistaðinn Spot í Kópavogi undir veisluna. Hann tekur 900 manns svo það ætti að duga. Kári bróðir, meistarakokkur hjá Bláa lóninu, hefur samþykkt að hafa yfirumsjón með veitingum í föstu formi en fljótandi verða á vegum Spot; bjór, hvítt, rautt, vodka og gin. Rósa benti mér svo á það í gær að við þyrftum að bjóða upp á brúðkaupstertu líka. Óskapleg óhollusta sem fylgir því að ganga í það heilaga greinilega og ljóst að ég grennist ekki sumarið 2012. Sennilega breytir það litlu þar sem heimsendir maya-indíána er ráðgerður í desember 2012. Ég dey þá feitur og get haft uppi andlátsorð Þormóðar Kolbrúnarskálds: ‘Feitt er mér enn um hjartaræturnar, vel hefr konungr alið oss.’ Báðir vísum við auðvitað til Noregskonunga, hann til Ólafs helga, ég til Ólafs fimmta.

Athugasemdir

athugasemdir