Stórt skref fyrir mannkynið!

skattarÞetta er rosalegt, klukkan 13:59 í dag skilaði ég mínu fyrsta rafræna skattframtali. Eins og þeir vita sem til þekkja er ég með vanafastari mönnum og hef allar götur fram að þessu skilað framtali á pappír. Þetta var hálfgerð trúarathöfn, ég dró fram sparirithöndina og fyllti framtalið út eftir bestu vitund. Næst tók ég ljósrit af því í bak og fyrir til vistunar í skjalasafni mínu og fór því næst á skattstofuna og afhenti framtalið þar persónulega.

Þessu fylgdi óbærilegur léttleiki og einhvers konar aukin samfélagsvitund. Ég á afrit af öllum mínum framtölum frá 1988 og varðveiti sem sjáaldur auga míns. Nú erum við hins vegar í fyrsta sinn að telja fram sameiginlega og ég legg það ekki á konuna, sem hefur framkvæmt þetta rafrænt frá 2004, að fara að grautast í tugum blaðsíðna handskrifað. Ég er ekki alveg með þetta klippt og skorið þar sem ég er með örfáa tugi þúsunda í verktakatekjur fyrir prófarkalestur ár hvert. Slíkt kallar á skil eyðublaðsins RSK 4.10 sem er rekstraryfirlit og krefur mig um að reikna út tryggingagjald og fleira sem ávallt veldur mér miklum kvíða enda leiðist mér fátt meira en útreikningar.

En þessi nýi skilamáti gekk alla vega upp og eftir hinar og þessar kúnstir kom villuprófun út á núlli og framtalið sveif um rafrænan himingeim hins rauðhærða ríkisskattstjóra, Skúla Eggerts.

Sennilega er þetta þægilegt en mér finnst þessi villuprófun hins vegar hvimleið. Stundum þurfti að fara krókaleiðir. Fasteign, sem við seldum í september, er með geymslu í bakhúsi sem hefur annað fastanúmer en íbúðin. Þetta tvennt var þó auðvitað selt í einu lagi. Rafræna framtalið gat ómögulega sætt sig við þessa staðreynd og heimtaði kaupverð geymslunnar ellegar fengjum við villu. Það var ekki fyrr en við skráðum kaupverðið 1 króna sem sættir náðust og villan var úr sögunni.

Annað sem er alveg magnað er að rafrænu framtölin vita ekki af banka- og gjaldeyrishruni landsins. Þannig fékk ég athugasemd á að lán til íbúðarkaupa væru tugum milljóna hærri en verð íbúðarinnar og þurfti, eftir símtal við þjónustuver ríkisskattstjóra, að færa inn skriflega þá athugasemd að þarna væri á ferð myntkörfulán sem hækkaði um 200 prósent eins og hendi væri veifað.

Síðasta áfallið var svo að fá að vita álagninguna strax. Gamla álagningarseðlaspennan 1. ágúst ár hvert er sem sagt úr sögunni hjá mér það sem eftir er ævinnar!

Athugasemdir

athugasemdir