Þá er maður kominn út úr hellinum aftur. Hingað kom fólk frá Lyse í morgun (eða öllu heldur fyrirtækjum sem Lyse úthýsir ýmsum þjónustuliðum til), tengdi breiðband inn í húsið og upp til okkar auk þess að setja upp öryggiskerfi. Heimasíminn dettur inn á morgun eða hinn en tenging við lýðnet og sjónvarp er þegar komin í gagnið. Svona á þetta að vera. (MYND: Landamæralaus tækni nútímans, net, sími og sjónvarp úr litlum plastkassa á vegg.)
Þessir göngutúrar með tölvuna niður á Quality Residence Hotel voru svo sem huggulegir og notalegt að sitja í anddyrinu þar en það er auðvitað miklu þægilegra að sitja við skrifborðið hérna heima með bolla af neskaffi á kantinum þótt íbúðin sé hálfpartinn í rúst enn þá. Sá sem hér var á ferð í morgun, tengdi nýja þráðlausa beininn og festi hann snyrtilega upp á vegg gaf honum heitið Gudmundsson og þannig birtist hann á lista yfir nettengimöguleika í tölvunni. Ég er að hugsa um að leyfa honum að halda þessu virðulega heiti.
Lyse tekur næstum ekkert fyrir allt þetta umstang enda svo sem þeirra hagur að viðskiptavinirnir séu með tæki og tól í nothæfu ástandi. Stærsta prikið í kladdann fá þeir þó fyrir heimasímaáskriftina en fyrir hana greiðum við fast gjald, 140 krónur á mánuði, og hringjum fyrir það að vild í alla aðra fastlínusíma á Norðurlöndunum, aðallega þó á Íslandi auðvitað.
Uppsetning á bókaskápum og ýmsar rafmagnsframkvæmdir fara fram hér á föstudagskvöld með aðstoð góðra vina og er hætt við að áfengi verði haft um hönd samhliða því. Framkvæmdirnar eru þó ekki eina tilefnið heldur einnig tveggja ára búseta í Noregi en það var einmitt 11. maí 2010 sem við lentum á flugvellinum í Sola blaut bak við bæði eyru á leið í skúringavinnu á spítala og höfðum enn ekki heyrt annars konar norsku en þá sem töluð er í Ósló og allir Íslendingar hafa heyrt í norskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum (svona eins og Jens Stoltenberg talar). Skömmu síðar rauf hin hroðalega mállýska stavangersk stóíska ró okkar og sennilega höfum við aldrei orðið söm eftir það. Mikið hefur nú breyst á þessum tveimur árum.
Við hófum upp lóð í City Gym í fyrsta sinn á föstudaginn í síðustu viku. Ég get sagt það strax að þetta er ein hroðalegasta búlla sem ég hef æft í og kallar eiginlega á pistil út af fyrir sig. Hann kemur á næstunni. Í þessum forsal vítis glymur dauðarokk á hæsta styrk og málsmetandi fólk lætur helst ekki sjá sig með undir 100 kílóum á stönginni í bekknum. Verðið kemur á óvart. Meira um það síðar.