Ég hefði ef til vill átt að vera sparari á yfirlýsingarnar í sorpflokkunarpistlinum á sunnudaginn. Ég sé það núna að ég hef enga ástæðu til að væla yfir nokkrum sköpuðum hlut. Lesandi skammt frá Tromsø hérna töluvert langt fyrir norðan mig sendi þessa lýsingu á sorpmálum í sínu sveitarfélagi og ég þakka bara pent fyrir þrítunnukerfið hérna í Stafangri:
Ég er sjálfur skammt frá Tromsø í Norður-Noregi og þar er þetta örlítið öðruvísi. Það er bara ein tunna fyrir utan öll hús. Flokkunin fer fram inni í húsi. Notaðir eru pokar sem eru mismunandi á litinn (einn gulur fyrir fernur og slíkt – grænn fyrir lífrænt sorp – blár fyrir plastumbúðir – og svo framvegis). Held að þetta séu fimm litir í heildina og svo hvítur poki (eða venjulegur búðarpoki sem þarf þá að snúa við ef það er eitthvað prentað á hann). Svo er notað eitthvað sem heitir optisk sortering sem tekur litinn á pokunum á einhverjum færiböndum og flokkar. En allt fer þetta í sömu tunnuna. En tunnan er ekki sótt að húsinu. Tunnan þarf að fara út á götu þar sem bíll með arm sturtar úr henni í bílinn. Ef þú ert ekki búinn að setja tunnuna út á götu á þessum tiltekna tíma ertu bara óheppinn. (MYND: Á Peppe’s Pizza niðri í bæ. Einhverjir vöruðu mig við lélegum pizzum í Stafangri en ég get ekki tekið undir það. Þessi máltíð var á Eldsmiðjustaðli. Fékk reyndar eina mjög slaka annars staðar í dag.)
Ég kvarta því ekki frekar yfir þessu einfalda og einkar aðgengilega kerfi sem ég fæ að búa við! Þetta með að snúa áprentuðum búðarpokum við er Nóbelsverðlaunaefni. Stafangursnorskan er öll að koma til hjá okkur núna eftir að fyrstuvikuáhrifin svokölluðu tóku að dvína en þau felast í áfallinu að heyra Stafangursframburðinn fyrst eftir að hafa lært hefðbundna Óslóarnorsku síðan í janúar. Það er erfitt að lýsa þessu, ef til vill má segja að það sé eins konar danskur keimur af norskunni hér en þó með norskri hrynjandin. Hér skrolla menn miskunnarlaust á r-inu og tala almennt harðara mál en hið dæmigerða norska bókmál. Nýnorskan er svo enn eitt fyrirbærið sem ég hef ekki beint legið í en hún er eingöngu ritmál og sett saman úr helstu norsku mállýskum 19. aldar af málfræðingnum Ivar Aasen sem vildi skapa þjóðinni ritmál en danska hafði þá verið ritmál Norðmanna um margra alda skeið eins og sjá má til dæmis af öllum verkum Knut Hamsun.
Hér í Stafanger stytta menn mikið og einfalda og það auðveldar margt að norskan býr ekki yfir neinum viðtengingarhætti. Norðmenn eru þó, líkt og Danirnir, latir við að smíða nýyrði. Ég spurði manninn, sem ætlar að leigja okkur tvö herbergi undir búslóðina okkar í sumar, ‘Hva heter container på norsk?’. ‘Container’ svaraði hann og yppti öxlum eins og ég væri útskryppi af fávitahæli. Af hverju að flækja þetta? Þetta sýnir manni þó hvað við Íslendingar höfum lagt mikið á okkur við að finna ný íslensk orð á allt, oft með frábærum árangri og þrotlausri vinnu alls konar íðorðanefnda. Tölva, gámur og veraldarvefur eru orð sem aðeins fáar þjóðir hafa nennt að þýða yfir á sínar tungur. Ókostir hnattvæðingar holdi klæddir. Sjónvarpsstöðin NRK Rogaland 24, staðbundin deild ríkisútvarpsins NRK, hefur hjálpað okkur mikið við að komast inn í framburðinn hérna bara með því að hafa kveikt á sjónvarpinu án þess endilega að vera að horfa.
Við fengum aldeilis að kenna á því þegar við ætluðum í sakleysi okkar að taka strætó að reiðhjólaverslun við mörk Stafangurs og Sandness. Við byrjuðum á að taka réttan strætó í ranga átt. Þegar við vorum komin niður í miðbæ Stafangurs benti bílstjórinn okkur á að þetta væri endastöðin og bað okkur að pilla okkur út. Við reyndum þá annan strætó og fórum með honum alla leið í þveröfuga átt fyrst og svo alla leið til baka og nokkurn veginn á réttan stað. Þetta kostaði tveggja klukkustunda setu í strætisvagni sem er meira en ég hef setið í slíkum farkosti samanlagt tímabilið 1995 – 2010.
Við fjárfestum svo í þessum fínu fjallahjólum, 21 gírs og allar græjur á tilboði og allt saman, en þá var Visað hennar Rósu ekki tekið gilt (nákvæmlega helmingur kortakerfa hér í borginni tekur það en hin fúlsa). Við verðum því að mæta á morgun og sækja hjólin vopnuð reiðufé. Við erum að hugsa um að fara gangandi í stað þess að eyða deginum í strætó meðan við erum ekki orðin 100 prósent klár á leiðarkerfum. (MYND: Strætisvagn í Stafanger. Sakleysislegt og litríkt yfirbragð, jú jú, en betra að vita hvað maður er að gera.)
Hér er annars rakið dæmi að ferðast um hjólandi, lítið um alvarlegar brekkur í borginni þótt hrikalegt fjalllendi sé allt í kring auk þess sem árunum fækkar ekki beint og hafi ég einhvern tímann þurft hreyfingu er það núna. Áætlað var að hefja hroðaleg átök í ræktinni í dag en við ákváðum að fá okkur frekar rauðvín af því að það var svo skelfileg reynsla að vera svona lengi í strætó. Þetta mun ekki heita líkamsrækt hjá mér heldur endurhæfing fyrstu átta vikurnar eftir að hún hefst.
Ha det bra. (Ha det er líka fullkomlega viðurkennd kveðja – hafðu það. Sá sem ávarpaður er ræður þá hvernig hann hefur það. Lýðræðislegt.)