Sti tekur slaginn á AMX

stiMaður er nefndur Sti. Reyndar er Sti stytting á Gústi sem er auðvitað stytting á Ágúst og í þessu tilfelli allveruleg stytting á Ágúst Þórhallsson en þá eru líka öll kurl komin til grafar. Gælunafninu er stolið frá ekki ómerkari manni en Björgvini Halldórssyni sem á einhverjum tímapunkti átti sér rótara sem hét Gústi og Bó kallaði aldrei annað en Sti. Við stálum þessum ófeimnir og yfirfærðum á okkar Gústa.

Ágúst Þórhallsson er frá Húsavík og kominn af ansi magnaðri ætt þar, einn náfrændi hans er mjólkurfræðingur og annar er hvorki meira né minna en vinnufélagi minn og sennilega hressasti íþróttafréttamaður á landinu, Arnar Björnsson.

Ástæðan fyrir því að ég drep hérna niður penna um Sta (lengi vel var deilt um hvort Sti beygist í föllum og verði þá hér er Sti, um Sta, frá Sta, til Sta og eftir langar umræður var komist að niðurstöðu um að nafnið beygist) er að drengurinn er búinn að vera að taka efnahagslíf landsins tiltölulega ósmurt til bæna undanfarið á vefsíðunni AMX. Þar hefur hann ekki veigrað sér við að taka álmálin til gagngerrar endurskoðunar og segja stjórnmálamönnum þjóðarinnar til syndanna þegar kemur að áli, stóriðju og mjólkuriðnaði (jæja, reyndar ekki þessu síðasta).

Ég kynntist Sta þegar við settumst saman á skólabekk við lagadeild Háskóla Íslands haustið 1993, báðir vel blautir bak við eyrun, til í slaginn þegar kom að drykkju en síður iðnir við bókina blessaða. Í þá daga kenndi prófessor Páll Sigurðsson okkur samningarétt og síðar sifja- og erfðarétt en það fag nefndi Páll aldrei annað en hin döpru vísindi. Og döpur voru þau.

Lífið var frekar áhyggjulaust á þessum árum, ég var í sumarvinnu hjá Ístak við að byggja meðal annars Hofsstaðaskóla í Garðabæ og Sti var bílstjóri hjá KK blikki og keyrði blikk og önnur hráefni á minn vinnustað. Lágu leiðir okkar þar saman yfir sumartímann. Sti sneri svo baki við blikkinu, fékk sér álstrípur þvert ofan í andóf sitt við álver og skellti sér á sjóinn þar sem hann dró þann gula sem aldrei fyrr og sagt er að hann hafi fengið einn og einn ál í netið. Þó aldrei hrökkál.

Ég hef drukkið takmarkalaust magn af brennivíni með Sta og haft helvíti gaman af honum um dagana. Drengurinn er búinn að opna lögmannsstofu og er í harðri sókn á þessum síðustu og allra verstu tímum og lætur finna vel fyrir sér á AMX þar sem hann hefur sýnt og sannað að hann veit hvað hann syngur. Því er hér með lýst yfir að atlisteinn.is er opinber stuðningsaðili við Sta, AMX og skrif þess fyrrnefnda á það síðarnefnda. Sti lengi lifi!

Athugasemdir

athugasemdir