Stefán Hallgrímsson – in memoriam

SH_Dagverdara_95Sólríkan mánudagsmorgun um miðjan maí 1992 stóð renglulegt síðhært unglingskvikindi við Hafnarfjarðarveg í Garðabæ og beið eftir að vera sótt. Þetta var ég að hefja það fyrsta af því sem að lokum urðu fjögur sumur í byggingarvinnu hjá Ístak hf. Von bráðar renndi lúin Lada, með nafni fyrirtækisins áletruðu, upp að mér og staðnæmdist. Undir stýri sat Allan Sveinbjörnsson verkstjóri, mikill heiðursmaður ofan af Akranesi, og við hlið hans sá sem kvaddi þennan heim nú um helgina, Stefán Hallgrímsson.

Allan þekkti ég frá því í desember árið áður, þegar mér auðnaðist að koma mér í vinnu við byggingu Ráðhúss Reykjavíkur í jólafríi frá skóla, en Stefán hitti ég fyrst þennan maímorgun og tókust von bráðar með okkur góð kynni. Útgeislun Stefáns var þannig að ekki var annað hægt en að líka vel við hann og líða þægilega í návist hans. Hvítt hár og skegg veitti Stefáni sterkan svip og ekki man ég eftir honum öðruvísi klæddum en í mosagræna vestinu sem hann skrýddist ávallt í vinnunni og bláum gallabuxum.

Stefán bjó yfir gríðarlegri kímnigáfu, var stríðinn með afbrigðum og svo hnyttinn í tilsvörum að fáa fýsti í orðaskak við hann. Aldrei gleymi ég því hvernig lúmskt glottið birtist í hvítu skegginu og hann leit sposkur á svip yfir gleraugun eftir að einhver okkar pjakkanna hafði fengið ausuna yfir sig úr smiðju hans en Stefán var eins konar milliverkstjóri og hafði umsjón með „húðarjálkunum“, eins og hann kallaði okkur handlangarana sem sátum í neðsta þrepi stéttaskiptingar byggingariðnaðarins.

Fáa þekkti ég sem reyktu meira tóbak en Stefán og engan sem var eins lunkinn við að glopra í sífellu frá sér kveikjurum og eldspýtum. Sumurin 1993 og ’94 unnum við að byggingu nýs Hofsstaðaskóla í Garðabæ og voru þau ófá skiptin sem öskrað var á okkur piltana yfir hálft athafnasvæðið „ELD!!!“ og í kjölfarið nálgaðist einhvers konar ókennilegur stormsveipur af grænu vesti og hvítum hárflóka á mun meiri hraða en talið var á færi tæplega sextugs manns. Þarna var hollast að vera snöggur að fiska upp kveikjarann og bjarga Stefáni áður en verra hlaust af.

Þessi erfiðu augnablik Stefáns urðu kveikjan að því að við vinnufélagarnir Þorleifur Reynisson, Guðmundur Breiðfjörð og Davíð Samúelsson ákváðum að nota tækifærið þegar Stefán varð sextugur í ágúst 1994 og gefa honum forláta Zippo-kveikjara með ígröfnu nafni hans og dagsetningu. Þetta var heilmikið verkefni og krafðist þess að afmælisnefndin fengi eina af Lödum Ístaks að láni auk framlengingar á matartíma til að aka úr Garðabænum niður á Hlemm, kaupa kveikjara og koma honum til gullsmiðs í áletrun. Fengum við Hannes Benediktsson verkstjóra, mikinn öðling og mannkostamann, í lið með okkur og féllst hann þegar á ráðahaginn í krafti þess virðulega málstaðar sem um var teflt. Gjöfin hitti hins vegar beint í mark og passaði tímasetning afmælisdagsins fullkomlega þar sem hann var einn af síðustu vinnudögum okkar sumarliðanna. Við kölluðum Stefán til okkar undir lok dags og afhentum kveikjarann. Það var eina skiptið sem ég man eftir Stefáni orðlausum…þó bara í nokkrar sekúndur.

Sumarið eftir, 1995, var mitt síðasta sumar hjá Ístak og ég starfaði ekki nema hluta þess með Stefáni. Líklega hef ég aldrei hitt hann síðan en uppeldishlutverk hans í hópi okkar yngstu kynslóðarinnar á vinnustaðnum var án efa mun umfangsmeira en hann sjálfan hefur órað fyrir. Síðar tengdumst við svo gegnum Facebook sem Stefán setti ekki fyrir sig að læra á, tæplega áttræður að aldri. Dóttir Stefáns, Elísabet, er vinkona og skólasystir úr Garðabænum. Ég frétti af veikindum Stefáns gegnum hana og var staðráðinn í að ná að hitta hann í næstu Íslandsheimsókn. Ekki verður úr því og þykir mér miður.

Ég kveð þessa stórbrotnu persónu Ístaksáranna með virðingu og bið fjölskyldu Stefáns allrar blessunar á erfiðri stundu.

Athugasemdir

athugasemdir