Spurningin sem gleymdist

almenn myndÉg óska Íslandi og Íslendingum innilega til hamingju með að hafa rekið af höndum sér þá óværu sem fengið hefur að stjórna landinu síðan vorið 2009 og halda áfram þeirri niðurrifsstarfsemi sem Sjálfstæðisflokkurinn hóf árið 2003. Verið þið sæl, kæru Jóhanna og Árni Páll, og verði ykkur að góðu hvað íslenskum kjósendum sýnist um ykkar norræna velferðarþjóðfélag, skjaldborg heimilanna og fleiri brandara frá 2009. Megið þið kafna með það í hálsinum.

Það eina sem ég saknaði í viðtali Ríkisútvarpsins við Jóhönnu Sigurðardóttur á kosningavökunni í kvöld var spurningin “En ertu hissa Jóhanna?” og svarið við henni. Það hefði ég viljað sjá. Er hún virkilega hissa að sjá þjóðina hafna þessum flokki? Mér er spurn.

Jóhanna kvað sér hljóðs vorið 2009 og gaf Íslendingum falska von um að þjóðinni væri borgið í höndum sósíalista. Gamli félagsmálaráðherrann stóð upp og sagði við Íslendinga “Þessu skulum við Samfylkingarfólk bjarga, það eina sem við biðjum um er ykkar atkvæði”. Atkvæðin fékk hún en lítið varð um efndir.

Ég gleðst yfir þessum kosningasigri vorið 2013. Ég hefði kannski viljað sjá Sjálfstæðismenn missa örlítið meira fylgi til að lækka í þeim rostann en sigur Framsóknar er gleðiefni. Það er kominn tími til að gefa þeim tækifæri til að standa við sín loforð…eða svíkja þau. Hvort tveggja er niðurstaða.

Mér er þannig séð sama hverjir stjórna Íslandi, ég hef ekki hugsað mér að búa á landinu aftur. En ofar öllu er ég feginn að kveðja stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og mig langar að kveðja hana með sömu orðum og séra Snorri á Húsafelli kvaddi Jón Hreggviðsson bónda frá Rein í Íslandsklukkunni: “Farðu nú guði á vald í grátt brókarhald, Jón Hreggviðsson, þér er fullrefsað að Húsafelli.”

Til hamingju Ísland.

Athugasemdir

athugasemdir