Sprengjubók

treholtNorskir fjölmiðlar loga bókstaflega eftir útkomu bókarinnar Forfalskningen sem blaðamennirnir Geir Malthe-Sørenssen og Kjetil B. Mæland settu í hillur bókaverslana í dag. Þar er því haldið fram að lögreglan hafi falsað gögn í máli norska embættismannsins Arne Treholt sem dæmdur var árið 1985 fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna og Írak. Höfundarnir halda því fram að fyrrum lögreglumaður hafi leitað til þeirra í mars 2006, þjakaður af samvisku sinni, og játað að eitt af stærri sönnunargögnum málsins, skjalataska stútfull af dollurum sem átti að hafa fundist heima hjá Treholt rétt fyrir handtöku hans, hafi alls ekki fundist þar. (MYND: Þessi mynd, sem lögreglan tók sjálf á sínum tíma, er nú eitt helsta sönnunargagnið um fölsunina meintu. PST/Scanpix)

Höfundarnir sýna fram á það í bókinni að myndir af töskunni og peningunum hafi verið teknar eftir handtöku Treholts og leiða líkum að því að í raun hafi þær verið teknar í höfuðstöðvum rannsóknarlögreglunnar en ekki í íbúð Treholts eins og fram kom í ákæru gegn honum. Í raun hafi myndirnar verið teknar fimm mánuðum síðar en haldið var fram en þetta megi glöggt sjá af því að engar leifar af límbandi séu sjáanlegar á töskunni á mynd sem tekin var af Treholt rétt fyrir handtöku hans en þær hafi verið auðsjáanlegar á mynd lögreglunnar af sömu tösku sem einnig áttu að hafa verið teknar rétt fyrir handtökuna. Ljósmyndasérfræðingar staðhæfa þetta í bókinni.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur í dag rætt við ýmsa aðila innan lögreglu og stjórnkerfis sem sjá má langar leiðir að hefðu heldur óskað sér að vera í viðtali um eitthvað annað. Ég tek það fram að ég horfði á viðtölin með öðru auganu í ræktinni. Lögmaður Treholts fer nú fram á endurupptöku málsins með hliðsjón af þessum nýju gögnum en hann var reyndar náðaður árið 1992 vegna heilsubrests eftir að hafa afplánað sjö ár af tveggja áratuga dómi. Samkvæmt bókinni hefur hópur háttsettra manna innan norsku leyni- eða öryggislögreglunnar (n. Politiets overvåkingstjeneste) varðveitt leyndarmálið í sameiningu í aldarfjórðung en einn þeirra, sem nú er kominn á eftirlaun, segir bókarhöfundum að hann hafi ekki getað þetta lengur.

Stjórnmálasérfræðingur Aftenbladet, Harald Stanghelle, segir málið geta haft gífurlegar afleiðingar verði niðurstaðan sú að lögreglan hafi falsað gögn í málinu en norskir embættismenn lýsa því yfir náfölir að þeir ætli að lesa bókina áður en þeir gefi nokkrar yfirlýsingar. Ég er að hugsa um að gera það þeim til samlætis.

Treholt-málið var umtalaðasta sakamál Noregs árin 1984 og ’85 og ekki var umfjöllunin minni á Íslandi, ég var tíu ára gutti á þessum tíma en nafnið Arne Treholt er brennt í minnið frá þessum árum, skipar nánast sama sess og Ronald Reagan, Leonid Brezhnev, Thatcher og sjálft Íran-Contra-hneykslið sem skók Bandaríkin um sama leyti. Þetta hefur breyst, nú er það bara Icesave.

Þetta er sérstakt mál, einhvers konar súrrealísk blanda af Guðmundar- og Geirfinnsmálum, Arnaldi Indriðasyni og Watergate…eða þannig skynja ég þetta.

Athugasemdir

athugasemdir