Það er heldur betur skarð fyrir skildi hjá Argentínu steikhúsi núna frá 1. desember en þá hverfur þeirra einstaki yfirþjónn, Kristján Nói Sæmundsson, til annarra starfa og gengur veitingastað Bláa lónsins á hönd. Þar með fer hann að vinna með Kára bróður sem stendur yfir pottum lónsins og einhverjir lesendur minnast án efa sem mannsins á bak við veitingarnar í brúðkaupinu okkar Rósu í sumar. (MYND: Við Kristján bregðum hornunum á loft að skilnaði eftir frábær ár við Barónsstíginn. Well done eins og þeir segja á steikarmáli./Rósa Lind Björnsdóttir.)
Kristján hefur undanfarin ár verið að minnsta kosti jafnsnar þáttur í heimsóknum okkar á Argentínu og sá ljúffengi matur sem þar er á borð borinn og veit ég að þeir vita sem til þekkja að þar fer þjónn sem á sér engan sinn líka. Mér er minnisstætt þegar við komum á Argentínu í sumarheimsókn okkar til Íslands 2011 og Kristján vísaði okkur til borðs af sinni alkunnu og hæglátu háttvísi eftir skylduopnunarathöfnina okkar sem er gin & tónik í leðursófanum við snarkandi arineld. Þá hallaði hann sér að mér og sagði: “Það er allt eins og venjulega, sama borð og allt.” Ekki að ég hafi beðið sérstaklega um téð borð en Kristján Nói þekkir sína viðskiptavini og þeirra þarfir. Þegar við komum í jólahlaðborðið í stuttri heimsókn um síðustu helgi stóð flaska af Peter Lehmann Mentor á borðinu, okkar eftirlætisrauðvíni. Maður þarf ekki að segja neitt. Ég óska Kristjáni Nóa velfarnaðar á nýjum vettvangi og hlakka til að heimsækja þá bróður minn í lónið sumarið 2013.
Jóhann Gunnar Baldvinsson, þjónn, kokkur og ágætur vinur minn, er annar maður sem hefur gert heimsóknir mínar á Argentínu ánægjulegri en ella en hann sinnti okkur af alúð þegar við Rósa borðuðum þar fyrst saman 4. apríl 2007. “Þú ert ribeye-maður,” sagði hann við mig, frjálsborinn og forn í lund, og málið var dautt. Takk fyrir það Jói og allt annað fyrr og síðar.
Eins og netglöggir menn hafa væntanlega tekið eftir hef ég hvorki sést á Facebook né skrifað mikið hér síðustu vikuna. Reyndar hef ég varla opnað tölvupóstinn minn fyrr en núna á föstudagskvöldið og rétt man eiginlega hvernig maður notar sjálfvirka gagnavinnsluvél eins og tölvur heita í tollskrá ríkisins. Þetta helgast allt saman af gríðarlegri yfirvinnu en ég hef komið heim nær dauða en lífi rétt undir miðnætti alla daga liðinnar viku nema tvo, þá kom ég um tíuleytið. Orsök þessara átaka er gríðarleg olíuborun á Ekofisk-svæðinu í Norðursjónum þar sem hinu svarta gulli er nú dælt upp sem aldrei fyrr og ekki búist við miklum rólegheitum á þeim vettvangi næstu árin. (MYND: Ægifögur sólarupprás á miðvikudaginn. Rósa tók þessa mynd á sínum vinnustað, ég tók aðra mín megin en síminn minn er því miður fyrst og fremst sími en ekki myndavél svo hún varð ekki merkileg./Rósa Lind Björnsdóttir.)
Á fimmtudagskvöldið stóðum við frammi fyrir því á athafnasvæði ConocoPhillips að þurfa að koma 612 fermetrum af gámum, rörum og öðrum útbúnaði um borð í flutningaskipið Far Symphony sem átti að leggja í 16 klukkustunda siglingu út á Ekofisk á sömu mínútu og lestun lyki. Vöruþilfarið er 800 fermetrar og ákveðið svæði verður að vera laust undir svokallað backload, búnað sem kemur til baka frá þeim níu borpöllum sem skipið siglir til. Þegar langt var liðið á lestunina varð ljóst að umbeðið svæði yrði tæplega til reiðu og í þetta sinnið var ekkert hægt að skera niður, allur farmurinn varð að skila sér.
Skipstjórinn kom niður á dekk og fulltrúar frá aðgerðastjórn hafnarsvæðisins þustu um borð á stuttan fund þegar allt stefndi í krísu. Málunum var naumlega bjargað fyrir horn þegar haft var samband við fyrsta borpallinn í siglingaáætluninni og þeir gátu staðfest að enginn varningur kæmi um borð frá þeim. Þannig var hægt að svindla örlítið á backload-plássinu og við bókstaflega tróðum síðustu gámunum niður á þilfarið með gráti og gnístran tanna eftir mjög gefandi 16,5 klukkustunda vinnudag. Ég man varla eftir að hafa keyrt heim. (MYND: Þilfarið bíður farmsins, stundum eru 800 fermetrar mjög lítið pláss.)
Ég hef sjaldan notið þess eins mikið að komast í helgarfrí og í gærkvöldi var jólahlaðborð (n. julebord) hjá vinnustaðnum hennar Rósu. Jólahlaðborð í Noregi gengur mun meira út á fyllerí en íslensk jólahlaðborð og sver sig meira í ætt við íslenska jólaglögg en einhverja skemmtun þar sem matur er í fyrsta sæti. Þegar ég rifja upp gærkvöldið hugsa ég líka að ég hafi ekki borðað neitt en brennivínið var í boði fyrirtækisins og flaut í stríðum straumi. Það var ansi gott að geta sofið út í dag eftir þessi átök, fyrst á bryggjunni og svo á barnum.