Spítalalíf (M*A*S*H)

hvittFrá og með gærdeginum tilheyrum við starfsfólki norska heilbrigðisgeirans, hvern hefði grunað það árið 2007!?! Það er alveg rafmagnað að vera farinn að gera eitthvað aftur og við getum alveg lifað með því að fá ekki sumarfrí í ár…vorum enda að koma úr hressilegu fríi. Við mættum hálftíma of snemma í gærmorgun, klukkan hálfsjö, þar sem við þorðum ekki annað en að taka strætó upp frá hjá okkur fjórar mínútur yfir sex ef gríðarlegt umferðaröngþveiti ríkti í Stafangri milli sex og sjö á morgnana. Strætisvagninn okkar reyndist nánast einn á götunum svo það vandamál er úr sögunni. (MYND: Nei, við vorum ekki að koma af tónleikum með Scooter, við erum í vinnunni. Betra að vera ekkert að sulla í rauðvíni með kaffinu!)

Hrúga af yfirmönnum tók okkur fagnandi, sturtaði ofan í okkur kaffi, drekkti okkur í pappírum til útfyllingar og fataði okkur svo upp í svoleiðis skjannahvítan embættisfatnað að við minnum einna helst á andlega meistara…sem við erum svo sem.

Næst voru okkur kosin örlög. Ég var sendur inn á sjálfa gjörgæsludeildina þar sem ég verð í viku í starfsþjálfun og leysi svo lærimeistara minn af í fimm vikur. Rósa fór á kvenna- og eitthvað fleira-deildina uppi á 4. hæð (4. hæð vestur það er að segja!). Liðið á gjörgæslunni er ótrúlega hresst, fyrir utan sjúklingana auðvitað. Uppfræðsla mín í heimi ræstinga er í höndum ungs Kosovo-Albana sem heitir Vollj…eitthvað en gengur undir hinu þægilega stuttnefni Vicky. Hún á að baki 14 ára búsetu hér á landi og talar mjög góða og auðskiljanlega norsku enda laus við mesta ósið Stafangursmállýskunnar, þetta djúpa skroll.

Ferill minn sem ræstitæknis fór býsna vel af stað og bara síðan í gær er ég sennilega búinn að nota fleiri pör af latexhönskum en ævina á undan til samans. Aðalmartröðin er að rata um sjúkrahúsið þegar maður er að þvælast eitthvað út fyrir deild. Þetta er 160.000 fermetra ófreskja á sjö hæðum auk kjallara sem við byrjum hvern dag í og er ekkert grín. Þarna starfa tæplega 6.000 manns, þar af nokkrir Íslendingar. Maður gæti sennilega unnið á staðnum ævina á enda án þess að rekast á nokkurn þeirra.

Það besta við þetta allt saman (fyrir utan að vera loks á launum) er að nú talar maður norsku allan daginn, ekki bara í búðum og á veitingahúsum, og það við fólk sem skartar öllu litrófinu í norskum framburði. Það er geysilega lærdómsríkt. Vicky kennir mér einn og einn frasa í albönsku líka og svo er það á við langskólanám að muna í hvaða röð gjörgæslan er þrifin og hvað er tekið hvaða dag. Það er líka mikil reynsla að reyna að opna svartan samanbrotinn ruslapoka íklæddur latexhönskum, mæli með því sem partýleik.

Norðmenn eru geysilega kurteist og hlýlegt fólk og öll deildin heilsaði mér með miklum virktum í skömmtum í gær og í dag svo ég hafði varla undan að rífa af mér latexhanska í sífellu til að grípa í spaðann á þúsund manns sem ég man svo auðvitað ekkert hvað heita. Gamli nýi gaurinn á vinnustaðnum, hve oft hefur maður farið í gegnum þann fasa síðan 1986? Oft.

Vinnufatnaðurinn er hins vegar algjör snilld. Náttfataþykkt er gott mál fyrir mann sem svitnar við að hugsa um sólskin og Ecco-sandalar sem fengust í Coop eru þarfaþing þess sem gengur um fimm kílómetra á dag á hörðum gólfum. Ég gæti leikið í dömubindaauglýsingu, slík er öryggistilfinningin. Maður er bara þurr allan daginn og gerir allt sem maður vill…
lifrarpylsa
Vondu fréttirnar: Ég er í SS lifrarpylsufráhvarfi, slæmu! Enginn veit hvað átt hefur… Væntanlegir farþegar frá Íslandi til Stafangurs eru beðnir að láta í sér heyra ef þeir hafa laust pláss í farangrinum fyrir tvö þrjú kvikindi.

Athugasemdir

athugasemdir