Kæmist ágætur samblöðungur minn á Vísi yfir myndir af mér úr World Class í Spönginni síðan í dag og í gær kæmi þessi fyrirsögn að öllum líkindum sterklega til greina. Eftir leti sem á sér ekki hliðstæðu í hinum vestræna heimi dróst ég með harmkvælum í salinn í gær og tók á því…ef hægt er að nota það orðalag yfir máttlausar hamfarir mínar á staðnum sem einkenndust meira af köldum svita, stunum og búkhljóðum.
Nú er sem sagt aftur runninn upp tími yfirbótar eftir að hrikalegt haustátak, sem einkenndist af þremur æfingum kringum mánaðamótin ágúst-september, rann út í sandinn. Vandamálið er hins vegar að nú þarf ég tvær sturtur í stað einnar, á í erfiðleikum með að reima skó (hvað þá að komast í fötin eftir glórulausa bak- og þríhöfðaæfingu í dag sem kenndi mér hvernig það er að verða að athlægi við að reyna að fara í venjulega skyrtu) og lít almennt út eins og ég sé kominn sjö mánuði á leið.
Við þessu eru tvö ráð:
a) Draga fram gamla óléttu-æfingagallann úr Stórum stelpum (sem ég á reyndar ekki en þarf að kaupa sem fyrst) og
b) æfa í þeim útibúum World Class þar sem mér reiknast til að fæstir þekki mig – sem sagt alls ekki í Laugum!
B-liðurinn er þegar í framkvæmd þrátt fyrir að ég hafi þurft að heilsa þremur félögum og/eða fyrrum samstarfsmönnum í Spönginni í dag. Þeir mega eiga það að þeir reyndu að hegða sér eðlilega. Einn spurði meira að segja fyrir sakir kurteisi hvort ég væri búinn að vera duglegur að æfa…in the face of the evidence!
Fyrir utan að þurrka sér og klæða er ekkert grín að reyna að stjórna bifreið í kjölfar fyrstu æfingar eftir langt hlé. Einhvern veginn hafðist þetta þó auk þess sem mér tókst að smyrja flatköku með kæfu við heimkomuna en Hrafnhildur, sem kenndi mér heimilisfræði í Flataskóla fyrir 100 árum, hefði sennilega litið í hina áttina hefði hún séð útkomuna. Ofan í þetta koma svo harðsperrur vítis eftir brjóst- og tvíhöfðaæfingu í gær sem er kannski það eina jákvæða við þetta, ég dýrka nefnilega sperrurnar. Þær eru merki um að maður hafi að minnsta kosti gert eitthvað annað en að sýna sig og sjá aðra á æfingunni. Ég dreg þó mörkin þegar þær taka að hamla eðlilegum athöfnum á borð við kaffidrykkju, íklæðningu sokka og ýmsu sem fer fram á salernum og ég ræði ekki frekar hér af ótta við að særa blygðunarkennd lesenda minna sem eru upp til hópa guðhrætt og kirkjurækið sómafólk og mega ekki vamm sitt vita.
Hér með lýsi ég því yfir í vitna viðurvist að mér verður ekki frekara messufall frá líkamsrækt á meðan moldir og menn lifa. Goðin verði mér vitni um þetta og gröm ef ég lýg, holl ef ég satt segi.