Spánarástand

svaliriiHérna í Stavanger er komin svoleiðis rjómablíða að einn fjórði væri nóg. Skafheiður himinn og blankalogn, hiti á svölunum hjá okkur mældist 25 gráður síðdegis í dag. Skelfilegt er að þurfa að eyða slíkum dögum á vinnustað en það hjálpar að vera þá búinn klukkan hálfþrjú…og vaktafrí á morgun.

Frítíminn hófst þó undir köldu augliti bekkpressunnar. Örlög ístrunnar fær enginn flúið og ekki bætir úr skák að ég var frá stálinu í viku vegna Icesave-flensunnar um síðustu helgi, sem ég kalla svo. Það hafði aldeilis afleiðingar. Mittismálið óx sem óð fluga en annað rýrnaði. Það hjálpar ekki að taekwondo-klúbburinn tekur nú hvorki meira né minna en tveggja vikna páskafrí sem er nú vel rúmlegt að mínu mati. Ekkert getur maður leyft sér orðið án skelfilegra afleiðinga líkamans.

Ég var að fá verðugt verkefni í prófarkalestur, rúmlega hundrað blaðsíðna meistaraprófsritgerð Lovísu Árnadóttur, fréttakonu á RÚV og fyrrum skólasystur í MA-námi í blaða og fréttamennsku. Lovísa skrifar um miðlun frétta hefðbundinna fjölmiðla á samskiptasíðunni Facebook og sýnist mér hún ekki fara neina fýluferð í þessari skemmtilegu rannsókn.

Það er gaman þegar fólk fær frumlegar hugmyndir að MA-verkefnum, ég var virkilega heppinn með mitt verkefni en það stefndi í óefni þangað til ég heyrði viðtal á Bylgjunni um páskana í hitteðfyrra. Þetta viðtal varð kveikjan að ritgerð um nafnbirtingar grunaðra afbrotamanna í fjölmiðlum og leit ritgerðin dagsins ljós fyrir sléttu ári eftir fimm mánaða setu yfir henni heima. Það gerði minnst til, ég var atvinnulaus og skrifaði ritgerðina á daginn og sótti um störf í Noregi á kvöldin. Nánast eins og að græða á daginn og grilla á kvöldin eins og aðrir Íslendingar gerðu þremur árum áður.

Athugasemdir

athugasemdir