Þetta skrifar lúinn en sæll maður sem síðustu 10 daga hefur ekið 2.155 kílómetra umhverfis land sitt (vegalengdin er með útúrdúrum). Ferðasagan mun birtast hér í nokkrum köflum enda frá mörgu að segja og sannarlega voru það engin vonbrigði að ferðast innanlands í stað þess að djamma og djúsa á erlendum ströndum sólbrenndur með Quick Tan-brúsa eins og einhverjir sungu af innlifun hér um árið. (MYND: Aðkoman í forstofunni eftir 10 daga frí, tæpt tonn af pósti.)
Við lögðum upp að morgni 6. ágúst í grenjandi rigningu og roki. Stefnan var tekin á Stykkishólm og viti menn, strax í Borgarnesi blasti blessuð sólin við okkur í blankalogni. Við reiknuðum út að við yrðum þrjá tíma þangað en far með Baldri var pantað klukkan níu. Rifum við okkur því upp klukkan hálfsex og drifum okkur og vorum fyrir vikið í Hólminum klukkan 07:50 sem var fullsnemmt en þó gefandi.
Siglingin með Baldri var ævintýri út af fyrir sig. Sólin bakaði okkur og 200 þýska ferðamenn á þilfarinu og fuglalíf var með afbrigðum. Eins var gott í sjóinn sem var heppilegt því annars sit ég með annan endann í salerni og hinn í fötu. Að koma til Flateyjar var eitthvað sem ég gleymi aldrei. Farangurinn var keyrður upp á Hótel Flatey en farþegarnir röltu þangað enda eyjan allt annað en stór. Þetta var eins og að stíga 150 ár aftur í tímann í einu skrefi. Allar byggingar á svæðinu hafa verið gerðar upp á svo snyrtilegan hátt að ævintýri er líkast.
Hótelið sjálft er kapítuli út af fyrir sig. Okkur var úthlutað herbergi sem er algjörlega ógleymanlegt. Herbergin eru ekki númeruð, við vorum bara innst til hægri á annarri hæð og það dugði. Áfengi fengum við að stinga í kæli eins og ekkert væri og öll þjónusta var með svo persónulegu móti að mörg hótel mættu taka sér til fyrirmyndar. Ingibjörg hótelstýra tók okkur af alúð og minnisstæðar eru herbergisþernurnar tvær og Bjarni sem bæði gekk um beina og skemmti gestum með íðilfögrum söng enda nemi við söngskóla hér á höfuðborgarsvæðinu. (MYND: Hótel Flatey.)
Kirkjan í Flatey er eitthvað sem erfitt er að lýsa en verk Baltasars Samper glóa þar líkt og gull Michelangelos í Sixtínsku kapellunni í Vatíkaninu. Ég eftirlæt framtíðargestum Flateyjar að kynna sér hana og hef ekki fleiri orð hér.
Þá má ekki gleyma dýralífi Flateyjar. Þarna lágu stærðarinnar brundhrútar jórtrandi á gröfum í kirkjugarðinum og gerðist síðuritari svo djarfur að taka viðtal við einn þeirra sem skoða má hér og verður fljótlega einnig sýnilegt undir liðnum Sjónrænt hér á síðunni.
Maturinn á veitingastaðnum á Hótel Flatey var eitthvað það ljúffengasta sem ég hef bragðað og borinn fram af fagmennsku. Við fengum frábæran þorsk og dásamlegan humar með. Súpan á undan var enn fremur þannig matreidd að ég varð að beita mig hörðu til að hætta eftir þrjár skálar. Að lokum vil ég klykkja út með því að verðið á tveggja manna herbergi var tæpar 19.000 krónur sem verður að teljast gott nú til dags. Næsta sumar verðum við ekki skemur en tvær nætur. (MYND: Ungur hrútur brosir fyrir myndavélina.)
Ég mæli með þessari paradís fyrir alla sem hafa áhuga á að kynnast því hvað íslensk náttúra virkilega stendur fyrir. Eins og Laxness ritaði: Það er eins og hér eigi landið heima. Næsti pistill: Fiskidagur á Dalvík.
P.s. Mig langar að þakka öllum þeim sem sendu mér póst og kvörtuðu yfir því að síðan var ekki uppfærð á meðan ég var á ferðalagi. Takk öll fyrir að lesa bullið í mér.