Hnullungurinn sá gengur undir nafninu 2009 DD45 og geystist hjá í aðeins 60.000 kílómetra fjarlægð sem er innan við tvöföld fjarlægð flestra gervitungla frá jörðinni. Þetta segir Robert McNaught, stjarnfræðingur við Ástralíuháskóla, en hann tók fystur manna eftir smástirninu í síðustu viku.
Hann segir jarðarbúa þó ekki þurfa að hafa áhyggjur af atburðum á borð við þennan en hins vegar sé allt í lagi að vita af þeim. McNaught segir að sjáist smástirni á stærð við það, sem nú þaut fram hjá okkur, tímanlega sé mögulegt að breyta stefnu þess með aðgerðum frá jörðu. Eins væri mögulegt að rýma árekstrarstaðinn og næsta nágrenni hans með nokkrum fyrirvara en þá væri það líka nokkurn veginn upptalið sem hægt væri að taka til bragðs.
Hann sagði líkurnar á árekstri þó vera nánast hverfandi. Smástirni á stærð við DD45 tæki hringferð um sólina um það bil á 18 mánaða fresti og nú væri að minnsta kosti öld þar til slíkur gripur kæmi svona nærri jörðinni á ný. Ekkert stórmál sem sagt.