Skeggið kvatt (A Farewell to Beard(s))

afraksturÉg gerði eins og Bjartur í Sumarhúsum í dag og rakaði af mér sumarskeggið. Þetta var þó reyndar ekkert sumarskegg, upphaflegur tilgangur þess var þátttaka í Mottumars í vor en svo teygðist eitthvað úr þessu hjá mér. Afraksturinn (í orðsins fyllstu merkingu) varð söfnun í tæpa átta mánuði, frá desemberbyrjun í fyrra og þar til klukkan 18 í dag. (MYND: Skeggið rétt rúmaðist á stórum matardiski, ekki fannst mér þetta svona mikið þegar það var á mér.)

Þetta var nú ekki eins auðveld athöfn og ég átti von á. Skeggið var orðið býsna eðlilegur þátttakandi í lífi mínu og ég sakna þess mikið að strjúka það þegar ég hugsa. Ætli ég hætti þá ekki bara að hugsa fyrir vikið sbr. þegar ég var á sínum tíma búinn að lesa svo mikið um skaðsemi áfengis að ég ákvað að hætta að lesa.

Gert er gert, þetta skemmtilega tilraunaverkefni er nú í samlokupoka með þrýstilás hérna fyrir framan mig og verður geymt, öðrum til viðvörunar. Sturtuferð eftir æfingu dagsins tók hins vegar töluvert skemmri tíma en venjulega þar sem enginn tími fór nú í að þurrka skeggið. Þá get ég ekki neitað því að öll neysla matar verður aðeins minna vesen en ánægðust er eiginkonan enda býsna langt síðan hún hefur séð framan í mig eins og hún orðaði það.afraksturii

Það verður fjör að mæta í vinnuna á mánudaginn og sjá svipinn á mannskapnum. Nokkrir þar hafa aldrei séð mig skegglausan og í gangi voru veðmál um hvort ég myndi gifta mig með skeggið sem ég gerði auðvitað. (MYND: Skeggið komið í pokann sinn. Nú geng ég með hann í vasanum hér eftir og þá get ég alltaf sagt að ég sé með skegg. Mótmæli menn dreg ég pokann upp.)

Ég ætla að gefa hárinu séns aðeins lengur, gefst samt ábyggilega upp á því þegar ég byrja í karate aftur í haust. Áhugi minn á að vera með hár minnkar að jafnaði í réttu hlutfalli við fjölgun sturtna á sólarhringnum.

Athugasemdir

athugasemdir