Í dag skilaði ég mínu fyrsta norska skattframtali, eða selvangivelse. Þetta gekk stórslysalaust vona ég. Samkvæmt bráðabirgðaútreikningi eigum við von á endurgreiðslu upp á 45.000 krónur þegar álagningin kemur í júní, það eru rúmlega 900.000 íslenskar. Þó hófst þátttaka okkar á vinnumarkaði ekki fyrr en um mitt ár í fyrra hérna í Noregi.
Ég fjallaði um skattframtalið í pistli hérna um daginn og ætla ekki að vera eins og gömul plata en hér fær maður persónuafsláttinn bara borgaðan út við álagningu. Ofan á hann njótum við þess svo að vera ný í landinu en við fáum fyrstu tvö árin í Noregi endurgreiðslu sem nemur tíunda hluta tekna síðasta árs. Svo kemur skattaafsláttur vegna viðbótarlífeyrissparnaðar líka við álagningu. Auðvitað má færa rök fyrir hvoru tveggja í þessu, að fá þetta í skömmtum yfir árið eða allt við álagningu en það góða við þetta er að hér í Noregi fá nánast allir launþegar dágóða summu í vasann við álagningu.
Ég hélt upp á skilin með því að horfa á fréttir RÚV frá því í kvöld og gærkvöld en liggur við að ég hefði betur látið það ógert. Kjaradeilur, bensínhækkun og öryrki sem lifir á loftinu. Þetta er uppörvandi.
Um þessar mundir er mikið rit í uppsiglingu hjá mér, Noregshandbók atlisteinn.is sem mun svo verða aðgengileg hér á síðunni. Þetta verður heilmikið leiðbeiningarit um hvernig sniðugast er að haga sér ætli maður að flytja til Noregs. Við erum sennilega búin að reka okkur á flest sem vert er að vita núna. Ég fæ orðið svo margar fyrirspurnir frá Íslandi um stöðu mála hér að ég er kominn með staðlað bréf með grunnupplýsingum. Varð það kveikjan að handbókinni. Hér er glefsa úr inngangi hennar svona til að veita áhugasömum blod på tannen eins og þeir segja:
Noregshandbókin er tilraunaverkefni á vefsíðunni atlisteinn.is, sprottið af hreinni, ómengaðri og íslenskri skyldurækni og velvild í garð landa minna. Hugmyndin er nokkurra mánaða gömul en framkvæmdin sjálf varð að veruleika á vormánuðum 2011 og var helsti hvatinn nýlegt nei í þjóðaratkvæðagreiðslu um enn ein Icesave-lögin ásamt skýrslu Danske Bank frá því í apríl 2011 um atvinnuleysi á Íslandi um óákveðinn tíma og þeim veruleika sem almennt blasir við íslenskri þjóð í upphafi 21. aldarinnar.
Hugmyndin að baki þessu öllu er sáraeinföld. Hún er að auðvelda þeim, sem hafa hugsað sér að bætast í hóp 9.000 Íslendinga í Noregi, undirbúning, atvinnuumsóknir, flutning, húsnæðisleit og bara lífið almennt. Þá er ætlunin að setja hér fram greinargóða lýsingu á skattamálum og hinum og þessum lögum og reglum á notadrjúgan hátt, þannig að helst sé tínt til það sem máli skiptir og hvernig það skiptir máli. Vinnumiðlun Evrópska efnahagssvæðisins, EURES, og Halló Norðurlönd, upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar, hafa lyft þarna grettistaki á sínum heimasíðum en þar vantar auðvitað sjónarhorn þess sem er að bjástra í þessu öllu og framkvæma það sjálfur.
Noregshandbók atlisteinn.is er skrifuð af mér, Atla Steini Guðmundssyni, 37 ára gömlum Garðbæingi, sem ákvað haustið 2009 ásamt maka sínum, Rósu Lind Björnsdóttur, fæddri á Húsavík en neitar þó að vera þaðan, að freista gæfunnar fjarri fósturjörð eftir að sú sama jörð botnfraus í kjölfar hins góðkunna bankahruns haustið 2008. Sú ákvörðun var hvorki átakalaus né tekin á einum degi og við tókum okkur heilan vetur í undirbúning áður en við fluttum til Noregs þriðjudaginn 11. maí 2010. Undirbúningstíminn var dýrmætur en fyrsta árið hérna í Stavanger í Noregi hefur ekki síður verið hlaðið lærdómi og það er fyrst nú, vorið 2011, sem við erum farin að þorna bak við eyrun og teljum okkur þekkja dálítið inn á norskt þjóðfélag og vinnumarkað. Allt ferðalagið var þó ánægjulegt í heildina. Verði leit okkar, tilraunastarfsemi, fjöldi mistaka og hrikaleg eldskírn í stavangersk, sem er framburðarmállýskan hér, einhverjum öðrum að gagni, lærdómi eða bara aðhlátursefni er tilganginum náð og rúmlega það.