Skattar og dauði

skattarÞetta tvennt telja helstu fræðimenn það eina sem öruggt er í þessu lífi og virðist sú kenning ganga alveg sérstaklega vel upp á Íslandi. Fregnir af væntanlegri hækkun tekjuskatts koma ekki á óvart, vert er þó að benda á að skattur á 250.000 krónur og lægri mánaðarlaun kemur til með að lækka í 36,1 prósent sem er virðingarvert.

Hugmyndir um svimandi hækkun virðisaukaskatts á gos, sælgæti, kökur og fleira úr 7 í 25 prósent og á bækur, tímarit og geisladiska úr 7 í 14 prósent eru hins vegar rothögg fyrir neytendur. Verði þær að raunveruleika þurrkast skattlækkunin á framangreindar tegundir matvæla 1. mars 2007 úr 24,5 í 7 prósent algjörlega út og hálfu prósentustigi betur. Ferð í Bónus verður eins og utanlandsferð.

Ekki það að ég lumi á einhverjum skyndilausnum sem komið gætu í stað þessara öfgakenndu hækkana, sem betur fer lærði ég ekki hagfræði enda þá hætt við að ég væri stofnanamatur núna. Það stendur þó eftir að þessar tölur eru ekki uppörvandi og úr verður mesta skattpíning síðan á dögum hirðstjóra Noregskonunga.

Að allt öðru. Egill Helgason silfurmaður er fimmtugur í dag og ég óska honum til hamingju. Ég hef skemmt mér konunglega yfir beittum netpistlum Egils allar götur síðan 2003. Megi næstu 50 ár verða honum hin bestu.

Athugasemdir

athugasemdir