Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð…

simiKlukkan 12:00 á hádegi í dag var nýja heimasímanúmerið okkar virkjað formlega af hálfu Lyse. Þetta tók einn mánuð, við pöntuðum númerið 26. júlí. Þarna er á ferð skólabókardæmi um hinn norska hraða en vinnusálfræðin hér gengur út á að vera helst alltaf í kaffi, mat eða sumarfríi…og helst af öllu bara á eftirlaunum með hvítvín, rækjur og majónes heima á palli. Ég furða mig daglega á því hvernig Norðmenn urðu ein af ríkustu þjóðum heims, svarið liggur ekki í botnlausri vinnu, svo mikið er víst.

Lyse býður heimasíma með þeim kjörum að greitt er fast gjald, 140 krónur (2.800 íslenskar), á mánuði og fyrir það má hringja í alla heimasíma á Norðurlöndum án frekara endurgjalds. Ekki þarf háskólagráður í hagfræði til að sjá að þetta er kostaboð, nú getum við hringt í fjölskyldur okkar, vini og kunningja og gert þeim lífið leitt á öllum tímum sólarhringsins án þess að borga krónu fyrir það! Hver segir að hádegisverðurinn sé aldrei ókeypis?!? (Ég veit að það var Milton Friedman sem sagði það, ég orða þetta bara svona.)

Húsnæðisstandsetning er nokkurn veginn á áætlun. Elli þúsundþjalasmiður kom hér á föstudaginn og henti gömlu hansahillunum upp á mettíma. Þessar hillur eru ein hagkvæmustu húsgögn sem ég hef átt, stílhreinar og einfaldar í uppsetningu. Það eina leiðinlega við þær er að bera þær milli staða. Íslendingar mokuðu hansahillum á ruslahaugana á níunda áratugnum og tóku að kaupa karakterlausa kassaskápa úr Ikea í stórum stíl. Vegir guðs eru ekki þeir einu sem eru órannsakanlegir.
hansahillur
Innflutningsteiti hér á Overlege Cappelensgate er 11. september svo þar liggur okkar lokafrestur til að vera búin að koma síðustu bók í hillu, fínt að hafa slíkt aðhald. Að sjálfsögðu eru allir vinir og kunningjar frá gamla landinu velkomnir eigi þeir leið um Stafangur í september. Ást á brennivíni er kostur en ekki skilyrði.

Á morgun hefst ein stærsta uppákoma ársins hér í borginni en það er hin svokallaða Olíumessa, ONS (e. Offshore Northern Seas), sem er allt í senn, ráðstefna, sýning og hátíð innan olíubransans. Hingað eru væntanlegir 42.000 ráðstefnugestir frá 96 þjóðlöndum sem munu ræða stöðu olíumála heimsins í fortíð, nútíð og framtíð. Þetta er risastór viðburður og varla varð þverfótað fyrir jakkaklæddu enskumælandi hyski þegar við hjóluðum í ræktina niðri í bæ áðan. Samhliða ráðstefnunni verður gríðarmikil olíuhátíð í miðbænum þriðjudag til fimmtudags og lýkur með flugeldasýningu á fimmtudagskvöldið. Það verður gaman, ég hef aldrei séð norska flugeldasýningu. Sennilega er það ein raketta á klukkutíma sé mið tekið af gangverki norsks þjóðfélags.

Athugasemdir

athugasemdir