Sitt sinus hverjum – um helvíti trígónómetríu

neskrukkaStund milli stríða. Nú er seinni helgin í boreteknologi-hlutanum hálfnuð og aðeins sunnudagslotan eftir sem er tveimur tímum styttri en laugardagarnir. Martröð dagsins var hornafræði, útreikningur meðal annars á því hve mikill þungi hvílir á borkrónu þegar boraður er brunnur frá hafsbotni í 30 gráðu halla og borstrengurinn telur x mörg borrör (e. drill pipe) af gefnu ummáli og úr þessari eða hinni stáltegundinni (e. grade). (MYND: Metamfetamín skólabekkjarins – neskaffi og Läkerol.)

Þetta er fundið með einhverju kósínus-brölti og formúlum sem innihalda hálft gríska stafrófið þar sem þetta táknar eðlisþyngd og hitt eitthvað annað. Er ekki bara hægt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum? Kósínus hljómar nú bara eins og eitthvað út á skyr, hvað þá tangens. Er það nýjasta brúnkukremið?

Þarna er ekki draumanámsefni manns sem enn fær annað slagið þá martröð að hann vanti bara síðasta stærðfræðiáfangann upp á stúdentsprófið og til að kóróna þetta rugl býður Rica Forum-hótelið í Stavanger, þar sem kennslan fer fram, upp á eitt versta kaffi síðan á dögum Neanderdalsmanna. Greinilega ekki metnaður til að útvega drekkandi kaffi á námskeiði sem kostar litlar 34.000 krónur (norskar). Til að koma mér gegnum átta klukkustunda fyrirlestur í hornafræði brunna tók ég því með mér gamla góða neskaffið að heiman og setti það í krukku utan af rammíslensku hreindýrapaté-i, gjöf frá fjölskyldunni úr síðustu Íslandsheimsókn. Leynivopnið var svo Läkerol með strawberry og guanabana-bragði sem gaf akkúrat þennan extra sentimetra af geðheilbrigði til klukkan 16:30 þegar Tore Grelland hleypti okkur út í sólskinið.

Grelland þessi er nokkuð sérstakur náungi, olíuverkfræðingur og ótrúlega slyngur kennari af verkfræðingi að vera. Í frímínútum kveikir hann á því sem virðist vera mikið áhugamál hjá honum fyrir utan olíu og gas en það er skíðaganga. Allar helgarnar fram að þessu hefur honum einhvers staðar í afkimum lýðnetsins tekist að finna beinar útsendingar frá keppni í skíðagöngu og núna um helgina hefur hann komist í sérstaklega feitt þar sem heimsmeistaramótið í alpagreinum stendur einmitt yfir einhvers staðar í Austurríki og norskir keppendur raka til sín gulli og gimsteinum.

Við eigum ekki sjö dagana sæla í bókstaflegri merkingu en nú lendum við í tveimur skólahelgum í röð, þessari og næstu. Að þeim raunum sigruðum höfum við setið af okkur fimm af átta helgum námsins og maður fer svona að sjá hilla undir marklínuna. Sá bögull fylgir þó skammrifi að við þurfum að standast fjögur skrifleg próf í maí til að teljast hafa lokið herlegheitunum og munum þó enn eiga eftir námskeið í notkun brúarkrana í júní. Að auki sitjum við þrjú námskeið til fyrir prófin í vor en næst á dagskrá er einmitt offshore sikkerhetskurs dagana 12. – 15. mars þar sem gerð verður heiðarleg tilraun til að drekkja okkur inni í þyrlulíkani á kafi í sundlaug hjá Falck Nutec við Jåttåvågen.

Er hægt að leggja öllu meira á mann sem hefur ekki fengið deigan dropa af brennivíni síðan um áramót!?! Ég bara spyr.

Athugasemdir

athugasemdir