Silfursleginn kjánahrollur

egill helgaEgill Helgason er vel að þeim Edduverðlaunum kominn, sem honum féllu í skaut á hátíðinni í gær, hvort tveggja Kiljan og Silfrið eru þættir sem maður vill helst ekki missa af. Þær eru ekki margar eftir, rósirnar í hnappagötum Ríkissjónvarpsins sem þessa dagana heldur þjóðinni í leiftrandi heljargreipum spennu yfir endalausum útsendingum frá vetrarólympíuleikunum í Vancouver. Sýning frá svigi karla hófst til að mynda klukkan 22:50 í gær, á laugardagskvöldi, og hefur þjóðin væntanlega setið sem límd við skjái sína. Í þessum skrifuðu orðum er held ég verið að sýna frá listdansi á skautum og áfram verður haldið fram að fréttum sýnist mér á heimasíðu RÚV. Byltingarkennd dagskrárstefna. (MYND: Eyjan.is, vona að ég hafi mátt stela henni.)

Fyrir þetta greiða svo skattborgarar hvort sem þeim líkar betur eða verr. Peningunum er vel varið í Egil og hans þætti en fátt annað stendur upp úr.

Silfrið í dag var frábært eins og oft áður. Kjánahrollurinn hríslaðist um mig eins og raflost þegar Valgerður Bjarnadóttir Samfylkingarþingmaður mærði Evrópusambandið með þeim rökum að það aðhylltist fullt af ‘flottum gildum’ (án þess að fjalla nánar um hvað í þeim fælist) og þarna væru samtök lýðræðisríkja á ferð sem væru gjörsamlega að redda málunum í Evrópu.

Það er allt í steik í Evrópu! Spánverjar eru að verða atvinnulausir allir með tölu og Grikkland er gjaldþrota. Evrópusambandsaðild gerði ekki mikið fyrir þessar þjóðir annað en að hækka allt um 30 prósent…nema launin. Þá er það fáránleg alhæfing hjá Valgerði að ‘öllum’ á Írlandi og Spáni þyki ESB-aðild hafa bjargað þessum löndum frá ógæfu. Ég hef persónulega talað við fullt af Spánverjum sem eru ekki þeirrar skoðunar. Reyndar hef ég ekki talað við neinn Spánverja (sem ég man eftir) sem hefur hælt sambandinu.

Þyki Valgerði Evrópusambandið svona lýðræðislegt má kannski benda henni á að reyndar er það svo ólýðræðislegt að það fengi ekki aðild að sjálfu sér ef það sækti um hana. Þetta er ekki mín fullyrðing heldur hefur breski félagsfræðingurinn Anthony Giddens sýnt fram á þetta með góðum rökum. Hann er sagður fimmti mest ívitnaði fræðimaður á sviði hugvísinda í heiminum og ég trúi honum.

Samfylkingin böðlast áfram í rakalausri krossferð sinni við að koma landinu í ESB með góðu eða illu. Það er hlægilega augljóst að þjóðin mun fara að dæmi Norðmanna og kolfella ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sennilega verður hlutfallið svipað og þeir sem segja munu nei við Icesave-lögunum í atkvæðagreiðslu næsta laugardag ef ekki tekst með einhverju móti að koma í veg fyrir hana. Mig grunar að svo verði þar sem Bretar eru skíthræddir við fordæmið sem sett yrði með atkvæðagreiðslunni og gerast nú samningaglaðir.

Breski skipulagsfræðingurinn sem heimsótti Egil í dag var líka góður viðmælandi og viðraði skemmtilegar hugmyndir um afslappað líf í umferðinni án umferðarmerkja en með þeim mun meiri skynsemi og tillitsemi í staðinn.

Þegar ég var við nám í Finnlandi árið 2003 skrapp ég stundum yfir til Tallinn í Eistlandi og keypti þar ódýrara brennivín en Finnar buðu upp á. Í vínbúðunum í Tallinn voru plaststaup við hliðina á öllum tegundum og ein prufuflaska af hverri tegund. Menn gátu sem sagt hellt sér í staup og smakkað það sem þeir voru að spá í að kaupa. Hugmyndir breska skipulagsfræðingsins og þetta fyrirkomulag eiga tvennt sameiginlegt: VIRKAR EKKI FYRIR ÍSLENDINGA!

Hann átti hins vegar eina frábæra setningu og var leitt að Valgerður Bjarnadóttir var farin úr myndverinu: ‘Don’t treat us like idiots.’ (Með fyrirvara um nákvæmt orðalag þar sem upptaka af þættinum er ekki komin á vef RÚV og ég get því ekki flett upp.)

Athugasemdir

athugasemdir