Siðrof?

justice‘Hann var sakfelldur fyrir að nauðga systur sinni í júní í fyrra auk þess sem hann útvegaði henni ofskynjunarlyfið LSD.’ Ég sat við tölvuna hér heima í dag og svaraði póstinum mínum á meðan ég hlustaði annars hugar á Sindra Sindrason lesa frétt í Bylgjufréttum klukkan fimm sem meðal annars innihélt framangreinda setningu og fjallaði um einhvern sem héraðsdómur dæmdi í dag í þriggja ára fangelsi. Jahá, hugsaði ég og svona rétt sperrti hægra eyrað (sem sneri í átt að útvarpinu).

Nú grunar marga ranglega að ég ætli að fara að tuða um réttarvörslukerfið á Íslandi og smánarlega dóma yfir kolbrengluðu fólki sem í sumum siðmenntuðum löndum hefði aldrei á ævinni stigið fæti út úr fangaklefa aftur eftir svipuð brot. Það ætla ég ekki að gera. Nóg er rætt um hlálega refsidóma hér á landi þótt ég fari ekki að bera í þann bakkafulla læk.

Það vakti mig hins vegar til umhugsunar næst þegar ég gekk niður til að fylla kaffibollann að viðbrögð mín við þessari frétt fyrrum samstarfsfólks míns á fréttastofu 365 voru ekki mikið meiri en hefði ég verið að hlusta á Elísabetu Margeirsdóttur veðurfréttakonu segja mér að 965 millibara lægð þokaðist hægt norðaustur.

Kannast fleiri en ég við það að sjokkþröskuldurinn er orðinn svo veðurbarinn að það er varla nokkur leið að raska ró manns með neinu né koma manni sérstaklega á óvart? Um það bil síðustu fimm ár er þróunin orðin slík að það er svona nokkurn veginn sama hvaða sturlun er verið að segja frá í fréttum, hvort sem er í undirheimunum, bankakerfinu eða á meðferðarstofnunum fyrir ungmenni, maður yppir bara öxlum. Næsta dag kemur svo eitthvað enn yfirgengilegra. Þetta hefur breyst nokkuð hröðum skrefum á fáum árum.

Afbrotafræðingar tala um siðrof (e. anomie), viðmiðum um lögmæta hegðun í samfélagi er hafnað vegna skjótra félagslegra breytinga. Gott ef Emile Durkheim er ekki faðir þeirrar kenningar, maður sem sökkti sér einnig ofan í rannsóknir á sjálfsvígum og undirrót þeirra sem einnig færast í vöxt hér á landi nú.

Hvað gerist þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kemur út? Höfundar hafa varað við henni, að eigin sögn með tárin í augunum.

Athugasemdir

athugasemdir