Sic semper tyrannis…

BunadarbankiÉg velti því fyrir mér alla helgina með hléum og yfir rándýru Neskaffi hvort rétt væri að splæsa í pistil um þetta málefni og taka létta mánudagsneikvæðni í janúar sem þó er eins fjarri mér og mögulegt er, mættur ferskur í nýja vinnuviku eftir mánudagsbekkpressuna í morgun sem er eitt besta vikustart sem völ er á. En ég ætla bara að láta vaða:

Mikið h***íti hefur stofnuninni Búnaðarbanka Íslands/Kaupþingi-Búnaðarbanka/KB banka/KB/Arion hrakað hin síðustu ár. Þessi áður rótgróni og trausti banki er á pari við krabbameinssjúkling á lokametrunum sem engar lyfjameðferðir, bænir eða milljarðahagnaður geta fylgt á vit betri daga. Arion er að verða eitt sorglegasta dæmi íslenskrar bankasögu um algjörlega misheppnað „comeback“ eftirhrunsáranna þar sem í góðsemi vegur hver annan, eins og Grímur Thomsen orti.

Banka þessum er gjörsamlega fyrirmunað að veita mér jafn-einfaldar upplýsingar og þær hvort búið sé að greiða upp lán sem á mér hvíldi (eða hvílir?) og ætti með réttu að vera úr sögunni eftir síðustu fasteignaviðskipti mín á Íslandi fyrir áramót (og fyrir jól líka og reyndar löngu fyrir desembermánuð í öllu sínu veldi). Hið geðþekka IS Lögfræðisvið-F&M-Innheimta-Fyrirspurnir loginnheimta@arionbanki.is, eins og það heitir í tölvupósti og líklega er komið langleiðina með lítinn regnskóg einhvers staðar í Amazon í hótunarbréfum til mín (ekki í tölvupósti) eftir að sala íbúðarinnar varð að veruleika, stendur þannig að vígi í innheimtumálum sínum að starfsfólk þar hefur ekki hugmynd um stöðu einstakra lána eða hvort þau yfirhöfuð séu uppgreidd eður ei.

Í stað þess að fletta láninu upp og segja mér hvort það væri horfið af yfirborði jarðar og minni kennitölu bauðst IS Lögfræðisvið-F&M-Innheimta-Fyrirspurnir loginnheimta@arionbanki.is allra náðarsamlegast til að framsenda erindi mitt í viðkomandi útibú sem svo myndi svara mér. Síðan er liðin vika án þess að starfsfólk útibúsins hafi séð ástæðu til að ómaka sig við svo lítilfjörlegum fyrirspurnum. Hverjum er ekki skítsama hvort hann eða hún skuldi blessaðri stofnuninni 27 milljónum minna að meira?, hugsar fólk þar líklega og hristir höfuðið yfir sauðsvörtum pupulnum sem er hvort sem er löngu fluttur til Noregs og á ekki að vera að vilja neitt upp á dekk. Ítrekun fyrirspurnar minnar hefur IS Lögfræðisvið-F&M-Innheimta-Fyrirspurnir loginnheimta@arionbanki.is ekki hirt um að svara þegar þetta er ritað en hún sveif vestur yfir hafið á rafrænum vængjum 15. janúar. Sennilega væri reynandi að feta í fótspor hins pappírsglaða banka og senda honum áþreifanlegt bréf í þar til gerðu umslagi með frímerki og spyrjast formlega fyrir um málið.

Ég verð ellegar að gera mér það að góðu að frétta það af skattframtali hæstvirts Ríkisskattstjóra árið 2016 hvort blessað lánið hafi safnast til feðra sinna eður ei.

Sérstaklega sorgleg þykir mér þessi sjúkrasaga bankans í ljósi þess að ég var viðskiptavinur hans frá árinu 1981 þegar ég, þá sjö ára að aldri, stofnaði þar minn fyrsta bankareikning, númer 5272, og fylgdi heil bók með eins og þá tíðkaðist. Án þess að blikna eða blána get ég greint frá því að í útibúi Búnaðarbankans, númer 318 í Garðabæ, fékk ég eina þá bestu þjónustu sem ég hef fengið hjá nokkru íslensku fyrirtæki og það í 27 samliggjandi ár. Þarna þekkti maður starfsfólkið allt með tölu eins og þær Halldóra, Herdís, Inga Dóra, Stella, Gunnlaug og Birna geta vottað og þjónustan var persónuleg og miðuð við einstaklinginn frekar en stöðu bankans á hlutabréfamarkaði. Maður upplifði kerfið sem réttlátt, einfalt og skilvirkt, slegið var á puttana á manni þegar maður lenti á rækilegu kortafylleríi en annars gengu hlutirnir eins og nýsmurð vél og legði maður fram fyrirspurnir var þeim svarað. Oftast samdægurs…langoftast bara strax.

Mér finnst hálfdapurlegt að verða vitni að þessari þróun tímabilið 1981 – 2015 og langar að deila því með þeim sem leggja það á sig að lesa stagl mitt. Tímarnir breytast greinilega…og bankarnir með.

Athugasemdir

athugasemdir