Sautjándi hvað…???

17. juni‘Nú eru sólarlitlir dagar, piltar,’ sagði Axlar-Björn þegar hann var handtekinn fyrir morðferil sinn árið 1596. Skein sól þó í heiði þann dag. Hérna hefur líka verið glampandi sólskin en nú dregur þann skugga fyrir sólu að sjálfur þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, er ekkert annað en ofurvenjulegur vinnudagur hjá okkur. Sem sagt á fætur klukkan 6 og hjólað af stað til vinnu. Til að bæta dökkgráu ofan á svart hefur sumarstarfsfólkið á spítalanum verið boðað á brunavarnanámskeið milli klukkan 15 og 17 á morgun og eftir það bíður kalt stál bekkpressunnar – brjóst og bicep sem er einmitt lengsta æfingin í hringnum hjá mér. (MYND: atlisteinn.is óskar Íslendingum nær og fjær gleðilegrar þjóðhátíðar 17. júní 2010.)

Það verður því ekki fyrr en í fyrsta lagi klukkan 19 á morgun sem hægt er að leyfa sér eitt rauðvínsglas með kvöldmatnum til að minnast feðranna frægu og frjálsræðishetjanna góðu sem Jónas orti um og komu austan um haf hingað [til Íslands] í sælunnar reit. Nú eru margir horfnir austur um hafið aftur eftir að nýju frjálsræðishetjurnar mættu á svæðið – ekki á drekkhlöðnum langskipum færandi varninginn heim heldur á stífgljáðum einkaþotum og sökktu landi sínu í það gjaldþrot sem lengi mun uppi verða. Og Jónas orti sín heimsósómakvæði á fyrri hluta 19. aldar. Sá fengi nett tilfelli gengi hann um götur Reykjavíkur ársins 2010.

En aftur að rauðum dögum. Málið er ekki flóknara en það að hérna í Noregi er annar í hvítasunnu (eða 17. maí, hvor sem fyrr rennur upp) síðasti rauði dagurinn á almanakinu fyrir utan sunnudaga þar til jóladagur rennur upp undir lok árs. Norðmenn nota ekki verslunarmannahelgi til að létta sér lífið og 17. júní er bara fimmtudagur. Þjóðir heims eru ótrúlega misjafnar að þessu leyti, frídagar á Íslandi eftir maímánuð og fram að jólum eru reyndar bara 17. júní og frídagur verslunarmanna (nema hvítasunna sé í júní) en Þjóðverjar búa að þeim munaði að þurfa varla að vinna heila vinnuviku frá september og út árið.

Gríðarleg lýsisbræðsla er hafin eftir að við fórum að hjóla til og frá vinnu og veitir svo sannarlega ekki af. Ferðalagið fram og til baka gerir 20 kílómetra á dag. Fyrir utan þetta eru svo ferðir í ræktina og út í búð svo við leggjum alveg þokkalega vegalengd að baki dag hvern. Þetta er hressandi þar sem maður mætir móður, másandi og glaðvaknaður í vinnuna upp úr hálfsjö. Hér er mikil hjólreiðamenning og fjöldi reiðhjóla á götunum við upphaf vinnudags. Ekki skemmir að yfirleitt er sól á morgnana á sumrin og leiðin sem við hjólum liggur meðfram Gandsfjorden, firðinum langa sem endar inni í Sandnesi og fær á sig sterkan blágrænan blæ í morgunsólinni. Þetta er hressandi og blandan af brekkum upp og niður í móti hæfileg.

Vicky blessunin liggur veik heima svo ég hef séð um þrif á gjörgæsludeildinni í gær og í dag og tekið hlé frá starfsþjálfun minni uppi á 5. hæð. Á mánudag hefst svo fimm vikna sumarfrí hennar og þá tek ég gjörgæsluna á meðan. Í morgun rakst ég óvænt á tvær íslenskar stúlkur á deildinni og var önnur í heimsókn hjá hinni sem hafði verið að geta barn í heiminn. Við tókum tal saman og var ákveðið að halda sambandi að sið Íslendinga erlendis. Það táknar núorðið yfirleitt að ég bið Rósu að ‘adda’ viðkomandi á Facebook (þetta er forvitnileg sögn, beygist væntanlega veikt og ætti þá að hafa kennimyndirnar addaaddaðiaddað, viðtengingarháttur (þótt ég) addaði).

Rósu finnst mjög hjákátlegt að ég neiti að vera á Facebook en noti hana leynt og ljóst til að senda alls kyns skilaboð eða ‘adda’ saklausu fólki. Hún getur varla kvartað svo lengi sem ég fer ekki fram á að hún skrifi á vegginn hjá einhverjum sem mér skilst að sé mjög tíðkuð samskiptaleið á Facebook. Ég myndi aldrei biðja neinn um að skrifa á veggi. Óforskammaðir aðilar stofnuðu hóp á Facebook sem gengur út á að fá mig á Facebook. Það er nú ekki beint hálf heimsbyggðin í honum, nokkrir tugir síðast þegar fréttist. Ég skal koma á Facebook þegar 1.000 manns verða í þeim hópi (þarna hefurðu það, Binni!). En ég drep þann fyrsta sem skrifar á vegginn hjá mér!
asgeir
Mér líst ekkert á þá fíkn sem Facebook og sumir netspilunartölvuleikir geta kveikt hjá fólki. Ásgeir vinur minn leikur að eigin sögn prest í tölvuleiknum World of Warcraft. Ásgeir er ekki sérstaklega klerklegur náungi eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Annar ágætur vinur minn fer (sem sagt með holdi og blóði en ekki rafrænt) á World of Warcraft-ráðstefnur í Bandaríkjunum. Mér líst ekkert á þetta, hvað ef ég endaði sem drykkfelldur prestur á Facebook? Ég myndi missa kjól og kall án tafar, kann ekki að tóna og get auk þess ekki beðið. (MYND: Myndir þú láta þennan mann jarðsyngja þig? Svona líta klerkarnir í World of Warcraft út. Myndin er tekin í frábærri heimsókn til Reyðarfjarðar um hvítasunnuna 2009.)

Athugasemdir

athugasemdir