Sandnes – nær en þig grunar

sandnesBeðist er velvirðingar á grófu láni á einkunnarorðum Sandgerðis á Reykjanesi í fyrirsögn pistilsins. Þá erum við flutt og martröðinni lokið. Ég trúi því varla enn þá satt að segja. Törnin á laugardaginn var einir ellefu tímar og svo átta tímar við dauðhreinsun á Overlege Cappelensgate á sunnudag. Gestur, Bjarki og Jón Halldór fá sérstakar þakkir fyrir ómetanlega aðstoð við burð. Við skiluðum íbúðinni klukkan 21:00 í hendur eiganda síns og eiginlega í betra ástandi en við fengum hana. Létum til að mynda leggja rafmagn og tengingu við beini (e. router) upp á háaloft. Heiðurinn af því átti Sigurbjörn Bjarnason, rafvirki og búfræðingur. (MYND: Sandnes. Stavanger er utar við fjörðinn, alveg efst fyrir miðri mynd.)

Frá og með mánudeginum 30. apríl erum við hæstánægðir íbúar Sandness sem er eitt alflottasta sveitarfélag sem ég hef búið í…og komið til eiginlega. Fyrstu nóttina í nýju íbúðinni sváfum við aðfaranótt sunnudags en ég lét flutningstilkynningu til Folkeregisteret taka gildi 30. apríl. Amma hefði orðið 101 árs þann dag svo mér fannst það við hæfi.gangerenii

Sandnes liggur upp að Stavanger, við botn Gandsfjorden, og er afstaðan svipuð og Kópavogur gagnvart Reykjavík. Með tæpa 68.000 íbúa er það 8. stærsti bær Noregs og við það að hirða sjöunda sætið af annaðhvort Tromsø eða Drammen, ég man ekki hvort. Íbúunum fjölgar um 1.000 á ári og er Sandnes þar með í örustum vexti allra sveitarfélaga Noregs. Ég skil það vel, í heildina er Sandnes ódýrari kostur en hin fokdýra Stavanger og munar töluverðu á húsnæðiskostnaði. Við lækkum okkur um 4.000 krónur í leigu og förum ekki í lakari íbúð. Eiginlega mun skárri. (MYND: Séð út um svefnherbergisgluggann. Unaðslegt útsýni að vakna við.)

Hér liggja rætur DBS-reiðhjólsins víðfræga (sem stendur ekki fyrir drusla bundin saman eins og lengi var talið á Íslandi heldur Den beste sykkel), hannyrðaunnendur um allan heim þekkja og hafa jafnvel pantað efni frá Sandnes Garn og síðast en ekki síst kemur eina Bond-stúlka Noregs fram að þessu frá bænum og meira að segja hverfinu okkar, Hana. Þetta er Julie Ege (On Her Majesty’s Secret Service, 1969) sem hefur fengið götu nefnda eftir sér í bænum fyrir frammistöðuna. (MYND: Af svölunum. Á þær skín sól til klukkan 15 á daginn yfir sumarið en hinum megin er stór garður og veglegir stofugluggar sem má opna upp á gátt.)gangereniv

Stemmningin hérna er gjörsamlega ólík Stavanger. Ferðalag á milli tekur kortér með strætó en þetta er eins og að vera í öðru landi. Hérna er mjög létt yfir mannskapnum og andinn alveg frábær. Hann er ekkert slæmur í Stavanger en maður tekur þó vel eftir muninum. Við litum á pöbbinn Megleren á sunnudagskvöldið eftir að martröðin var afstaðin. Eigandinn, Harry, var á staðnum og heyrði okkur segja barþjóninum að nú værum við loksins flutt í bæinn. Hann rauk þá upp með miklum bægslum og orðunum ‘Nú, þá verð ég að kynna mig fyrir ykkur!’ Fleiri samskipti hafa verið á svipuðum nótum, fólk leggur sig í framkróka við að láta okkur finnast við velkomin. Það er mjög skemmtilegt. (MYND: Út um stofugluggann. Bakhlið verslunarmiðstöðvarinnar Havanna sem kemur sér býsna vel að hafa einmitt þarna.)gangereniii

Breiðbandið verður tengt inn í hús hjá okkur miðvikudaginn 9. maí eins og ég hef greint frá áður. Þangað til erum við netsambandslaus sem mér þykir býsna þungbært. Skelfing hvað maður er orðinn háður þessu. Pistillinn er ritaður í anddyri Quality Residence-hótelsins í miðbæ Sandnes sem býður upp á þráðlaust net. Hingað mun ég kíkja með tölvuna eitt eða tvö skipti enn þar til tenging kemst á heima.

Nú er bara að koma sér fyrir á nýja staðnum. Tímapressan er þó úr sögunni sem er léttir. Mikið dót verður í bílskúrnum og geymslunum niðri í kjallara. Það er mikill munur og mun auðvelda næstu flutninga sem vonandi verða í eigin fasteign einhvern tímann á næstu fimm árum. Við erum að minnsta kosti komin í draumabæinn og erum hæstánægð með lífið eins og er. Og sumarfrí í næsta mánuði, þetta er tómur lúxus.

Athugasemdir

athugasemdir